144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Forstjóri Isavia sendi innanríkisráðuneytinu bréf þann 13. desember 2013 að beiðni ráðherrans þar sem fram kom að niðurstöður útreikninga á nothæfi Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvalla samanlagðra án flugbrautar 06-24, sem hingað til hefur verið kölluð neyðarbrautin, voru mjög hagfelldar fyrir þá sem berjast fyrir lokun brautarinnar en forsendurnar voru hins vegar rangar og byggðu ekki á lögbundnum viðmiðum.

Í baráttu meiri hlutans í Reykjavík er þetta bréf endurtekið notað af skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar til að réttlæta fyrirhugaða byggð á Hlíðarendasvæði og losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Í bréfi frá 28. desember 2013 frá fulltrúum sjúkraflugþjónustunnar var þessum vinnubrögðum harðlega mótmælt og þess krafist að fram færi áhættumat um þennan gjörning áður en til ákvörðunar kæmi um framtíð flugbrautarinnar. Isavia varð við þessari ósk og skipaði nefnd til að gera áhættumat samkvæmt ferli sem Isavia hefur sjálft innleitt, en í desember sl. ákvað Isavia að víkja öllum hagsmunaaðilum úr þessari nefnd áður en niðurstaða hennar lá fyrir. Á sama tíma keypti Isavia þjónustu af verkfræðistofu hér í bæ og varð niðurstaða hennar mjög í takt við það sem áður hafði komið fram í títtnefndu skjali.

Þetta var síðan kynnt og meiri hlutinn í Reykjavík fór á þessum grunni að rótast á Hlíðarenda, þ.e. Valsmenn fóru af stað með það rót sem nú birtist á Hlíðarenda þannig að það er algjörlega búið að hunsa það sem fram hefur komið. Síðastliðinn desember var bréfi vísað til Samgöngustofu þar sem þess var farið á leit að Samgöngustofa mundi úrskurða. Það hefur enn ekki orðið að veruleika, virðulegi forseti. Nú eru 16 mánuðir liðnir frá því að þessi hringur um (Forseti hringir.) flugvöllinn í Vatnsmýrinni hófst. Ég spyr: Hvaða sleifarlag er í gangi og hvernig stjórnsýslu búum við við?