144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Forseti. Á þingi í gær lýsti fjármála- og efnahagsráðherra því yfir að hann deildi áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna en málið væri ekki einfalt. Tvennt kemur til að mati ráðherra, það sé mikið umhugsunarefni hvernig við höfðum lent í því ítrekað á undanförnum mánuðum að grundvallarstoðir í okkar heilbrigðiskerfi eru teknar nánast í gíslingu til að ná fram kröfum í kjaraviðræðum, sagði fjármála- og efnahagsráðherra hér í gær.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær af stöðu kjaraviðræðna er haft eftir formanni BHM að ekki sé mikill áhugi ríkisins á að koma til móts við viðmælendur sína í yfirstandandi kjaraviðræðum. Fundi í kjaradeilunni hafi verið slitið og samkvæmt formanni BHM hafi nákvæmlega ekkert gerst, ekkert boðað útspil ríkisins hafi komið fram og ekki liggi fyrir hvenær næsti fundur eigi að vera. Þetta bætist við eftir að BHM hafði samþykkt verkföll í atkvæðagreiðslu en þá voru fyrstu viðbrögð ríkisins að kæra atkvæðagreiðsluna. Síðan neitaði ríkið að funda yfir páskana til þess að leita að lausn áður en verkföll hæfust. Þá höfðu viðræður staðið yfir í tvo mánuði án þess að nein tillaga að lausn kæmi frá ríkinu. Eftir að verkföll hófust hefur ríkið ekkert lagt fram og er tregt til að funda. BHM vildi funda um helgina til að reyna að leysa deiluna áður en þau hæfust en ríkið neitaði. Síðan var fundað í gær og ég endurtek að þá kom ríkið tómhent til fundarins.

Í þessu ljósi virðist fjármála- og efnahagsráðherra í raun og veru ekki hafa miklar áhyggjur af verkföllunum. Að minnsta kosti virðist samninganefnd hans ekki vera að gera neitt til að stöðva verkföllin við samningaborðið. Það er því ekki hægt að komast hjá því að velta fyrir sér hvort samninganefnd fjármála- og efnahagsráðherra sé að tefja kjaraviðræður vísvitandi og þar með framlengja verkföll í staðinn fyrir að reyna að finna lausn í deilunni svo hægt sé að stöðva verkföllin. Eru áhyggjur fjármálaráðherra, sem hann lýsti yfir hér í gær, af verkföllum BHM orðin tóm þegar flest virðist benda til að samninganefnd hans sé að tefja viðræðurnar og þar með framlengja verkföllin að óþörfu?