144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil segja það að þrátt fyrir ágæti þessa máls, þá finnst mér það svolítið sérkennileg forgangsröðun á þessum tíma að þetta sé málið sem hæstv. forsætisráðherra leggi svona mikla áherslu á að koma inn í þingið til umræðu. En það eru auðvitað mismunandi áherslur hjá þingmönnum og ráðherrum um hvað eru akútmál og hvað ekki. Það breytir því ekki að frumvarp um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu, er af hinu góða þrátt fyrir að ég held að ljóst sé að nefndin þurfi að skýra aðeins betur þá hluti sem hér voru ræddir áðan til þess að þeir vefjist ekki fyrir fólki, það þurfi að túlka það sem hér kemur fram þannig að allir skilji þetta á þann hátt sem hæstv. ráðherra var að reyna að útskýra fyrir þingmönnum áðan.

Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að frumvarpið nái fram að ganga. Við hljótum að vera nokkuð sammála um að við viljum að íslenskir framleiðendur fái þetta tækifæri til að koma sinni vöru á framfæri, en auðvitað skipta skilgreiningar máli. Þegar ég var að lesa frumvarpið yfir í gær þá játa ég að mér fannst, eins og kannski þeir þingmenn sem hér töluðu áðan, vera svolítið á reiki hvað nákvæmlega væri átt við. Mér fannst íslenskt vera orðið svolítið erlent og öfugt. Ég held að það þurfi að leggja einhverja vinnu í að skýra þetta svolítið betur. En það hafa verið gerðar breytingar frá þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram til þessa og ég held að þær séu til bóta. Tíminn sem hér var nefndur rétt áðan, árafjöldinn, hvort vara þurfi að hafa verið til í lengri eða skemmri tíma á markaði til að teljast íslensk og hvenær við teljum að eitthvað sé hefð og annað slíkt, það er auðvitað um margt huglægt. Árafjöldinn er ágætur til að miða við en ég tek undir með þeim sem gagnrýndu árafjöldann, ég held að það séu svolítið þröngar skorður að miða við 50 ár. Nú þekki ég ekki umræðuna sem átti sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af því að hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér taldi að það gæti orðið einhver ásteytingarsteinn í umfjöllun um málið, þ.e. að einhverjir mundi vilja lækka þetta viðmið.

Við höfum auðvitað rætt þetta efni töluvert í gegnum tíðina, t.d. upprunamerkingu matvæla. Um tíma var hægt að kaupa hér úti í búð þvegið grænmeti frá Hollandi sem merkt var með íslenskri þjóðfánarönd. Því var auðvitað breytt vegna þess að í fyrsta lagi var varan náttúrlega alls ekki íslensk en fólk taldi sig vera að kaupa íslenska vöru. Við höfum hert eftirlitið með því að allt slíkt komi fram. Ég veit að stórir aðilar láta framleiða hönnunarvörur sínar erlendis vegna þess að vinnuafl á Íslandi er sagt svo dýrt, þess vegna þurfi að framleiða vöruna erlendis, það verði ekki markaður fyrir hana ef það ætti að framleiða hana innan lands. Ég velti því fyrir mér og er ekki endilega sátt við þá nálgun að það sé næg undirstaða til að vara teljist íslensk að hönnunin sem slík fari fram hér á landi en að öðru leyti gerist allt annað erlendis og varan er svo flutt hingað inn aftur sem íslensk. En það má vera að markaðurinn hér sé svo smár að við þolum ekki annað.

Varðandi það hvort ullin sé nýsjálensk eða íslensk þá veit ég ekki hvort Neytendastofa hafi tök á því að fylgjast með því hvort svo sé, ég þekki það ekki, hvernig slíkt kemur inn til landsins, af því að ullin var tekin sem dæmi hér áðan. Mér finnst alla vega að það sé mjög margt sem við þurfum að gæta að í þessu. Þetta skiptir máli, við finnum það auðvitað gagnvart ferðaiðnaðinum að erlendir ferðamenn ásælast íslenskar vörur og sérstaklega ef þeir geta tengt þær við staðinn eða fólkið þar sem þeir eru staddir, það er mjög mikilvægt. Á sama hátt er mikilvægt að fólk geti gengið að vörum erlendis sem eru merktar íslenska fánanum. Það getur hjálpað okkur í útflutningi og hefur gert það, það hafa verið veittar undanþágur sem ég held að hafi skipt máli. Ég man að við umfjöllun um þetta mál síðast talaði hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir og velti fyrir sér vörum sem væri erfitt að skilgreina, ég man að hún nefndi m.a. malt og appelsín, það væru innfluttar vörur en væri þó þjóðarhefð fyrir á Íslandi og framleiddar hér heima þótt allt hráefnið í þær væri innflutt. En ég held að þetta skipti máli fyrir íslenska framleiðendur en ég geld varhuga við því að vara sem er í raun og veru alfarið og að öllu leyti framleidd erlendis fái íslenskan stimpil. Ég veit ekki alveg hvort ég mundi telja slíka vöru vera íslenska þó að við getum auðvitað sagt: Hönnunin er íslensk en vissulega er framleiðslan það ekki. Hvernig er þetta í öðrum löndum? spyr ég mig.

Við höfum verið mjög stíf með notkun fánans og ég þekki það ekki hvort aðrar þjóðir hafa verið svona stífar varðandi notkun þjóðfána sinna eins og við höfum verið eða hvort það er alls staðar þannig að framleiðendur geti notað þjóðfána sinn. Það skiptir líka máli, en við erum auðvitað eyland og flytjum ótrúlega margt inn og erum smá þannig að það hefur ákveðin áhrif líka. Það er alveg hægt að tala sig niður á einhverja nálgun í frumvarpinu af því að ég held að það sé að uppistöðu til gott og eigi að vera hönnuðum, framleiðendum og öðrum til góða, en þá þurfum við kannski að vera sammála um nálgunina. Ef við viljum skilgreina matvöru með einum hætti en íslenska hönnun með öðrum, hvert erum við þá komin? Ég held að við þurfum að nálgast málið með sanngjörnum hætti, þ.e. að þeir sem eigi hagsmuna að gæta sitji við sama borð. Ég er ekki alveg sannfærð um að svo sé eins og málið lítur út í dag en ég treysti því auðvitað að nefndin fari vel yfir það í umfjöllun sinni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en mér finnst þetta áhugavert mál og tel að við eigum að auka notkun fánans, sérstaklega varðandi íslenskar landbúnaðarvörur og íslenska hönnun. Það er vissulega mikilvægt að skilgreina hönnun eins og mig minnir að hafi komið fram í umsögnum um málið síðast, að sú skilgreining sé ekki á reiki og fólk viti um hvað það er að tala, þar er ekki allt undir. En ég ætla að láta þetta duga í fyrstu umferð og finnst umræðan hafa verið áhugaverð það sem komið er.