144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta mjög áhugavert mál. Svo ég byrji aðeins á því sem tengist kannski ekki efni frumvarpsins finnst mér persónulega, og ég tek fram að það er mín persónulega skoðun, að við ættum nota íslenska þjóðfánann í miklu ríkari mæli og rýmka lög og reglur um hann. Þegar maður ferðast erlendis sér maður að þjóðfánar eru víða nýttir mun meira. Það eru rýmri heimildir til að flagga þeim, m.a. að kvöldlagi og næturlagi og annað því um líkt. Ég vil sjá miklu rýmri reglur og að þjóðfáninn verði notaður víðar og við fleiri tilefni. Ég er alveg sannfærður um að stolt Íslendinga gagnvart þjóðfánanum vex ef reglurnar eru rýmkaðar. Ég er mjög stoltur af íslenska fánanum. Mér finnst hann fallegur og ég mundi vilja sjá hann notaðan meira hér á landi en gert er. Ég vil því hvetja, hvort sem það heyrir undir hæstv. forsætisráðherra eða aðra ráðherra, til þess að það verði skoðað sérstaklega og hvetja nefndina til að skoða það líka við vinnslu málsins.

Þá að innihaldi málsins en eins og komið hefur fram hefur það verið talsvert lengri í meðförum þingsins. Ég man eftir því að fyrsta ár mitt á þingi var frumvarp um þetta mál frá þáverandi hæstv. forsætisráðherra og síðan hefur það verið lagt fram sem þingmannamál af núverandi hæstv. ráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur, hv. þm Silju Gunnarsdóttur og fleirum og núna af hæstv. forsætisráðherra.

Ég fagna mjög innihaldi málsins vegna þess að ég mjög fylgjandi því að fáninn sé notaður í ríkari mæli. Í frumvarpinu er líka verið að taka á því að nota megi íslenska hönnun og fánamerkja hana að því gefnu að um íslenska hönnun sé að ræða. Það þarf samt að huga að mörgu í því. Í umræðunni hefur verið komið fram með ýmsar vangaveltur sem mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði, vegna þess að við verðum að hafa dálítið stífar reglur um hvað má merkja sem íslenska hönnun eða íslenska vöru. Í frumvarpinu er gerð mjög góð tilraun til að skilgreina það og flokka niður, varan verður að vera framleidd hér á landi, eiga sér mjög langa sögu eða að um íslenska hönnun sé að ræða, þá er hægt að sækja sérstaklega um að fá að nota vörumerki.

Maður getur velt fyrir sér einu sem hefur verið talsvert í umræðunni á undanförnum árum og það er íslenska lopapeysan. Fyrirtæki hafa verið staðin að því að láta framleiða lopapeysu til að mynda í Kína eða Tyrklandi eða ég veit ekki hvar, selja þær svo og tala um þær sem íslenskar lopapeysur. Ég hvet nefndina til að fara ofan í þetta frumvarp og velta fyrir sér hinum og þessum hlutum, eins og t.d. ef íslensk lopapeysa, vegna þess að þær eru allar íslenskar og hannaðar að íslenskum sið og íslenskri hönnun, er framleidd úr íslenskri ull erlendis. Hvað með íslenska lopapeysu framleidda úr erlendri ull á Íslandi? Hvað ef íslensk lopapeysa er framleidd úr erlendri ull erlendis? Nefndin þarf að spyrja sig þeirra spurninga og að því hvernig sé hægt að fóðra það að upp komi vandamál sem því tengjast.

Það hefur þegar margt komið fram í umræðunni og ég vil bara segja að ég er mjög fylgjandi þessu máli. Ég hvet til þess að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar afgreiði það hratt og vel. Vonandi verður það að lögum á þessu vorþingi því að eins og fram hefur komið eru mörg hagsmunasamtök í bæði matvælaframleiðslu og iðnaði sem hafa kallað eftir því að geta merkt íslenska vöru íslenska þjóðfánanum. Það er sjálfsagt að nota íslenska þjóðfánann en um það verða að gilda stífar reglur þannig að það sé ekki misnotað.