144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[15:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er öldungis hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru örugglega tíu sinnum fleiri í New York sem þekkja Björk Guðmundsdóttur heldur en íslenska fánann, einfaldlega vegna þeirrar ástæðu sem kom fram í máli mínu áðan, við erum sífellt að fela íslensk fánann. Við flöggum honum ekki einu sinni á afmælinu okkar eins og frændur okkar Danir gera, og eru þeir ekki þekktir af þjóðrembu. Við merkjum ekki landbúnaðarfurðir okkar með honum enn þá. Það gera Svíar, í hverri einustu búð í Svíþjóð merkja Svíar kjötvörur sínar og landbúnaðarafurðir sænska fánanum og auglýsa í öllum bæklingum sem dreift er inn á sænsk heimili að þeir séu að selja sænskt kjöt en ekki eitthvað annað. Ekki eru þeir þekktar þjóðrembur.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir að markaðsstarf tekur tíma. Þess vegna þurfum við að samsama íslenska fánann því sem best gerist hér, til þess að það verði þannig í tímans rás að þegar menn sjá íslensku fánalitina detti þeim helst í hug gæði og náttúrlega spennandi land, því að það er svo sannarlega rétt sem hv. þingmaður segir að núna upp á síðkastið er Ísland það land sem flestir vilja heimsækja. Maður flettir varla The Guardian eða fer inn á heimasíðu BBC án þess að Ísland sé annaðhvort viðkomustaður mánaðarins eða eitt af tíu bestu löndum til að heimsækja um jól o.s.frv. Allt er það góðri markaðssetningu að þakka. Þess vegna eigum við að bæta því við sem liggur beint við og er augljóst, sem er að nota íslenska fánann á smekklegan og uppbyggilegan hátt til þess að vera tákn um gæði, hreinleika, ferskleika og alls þess besta sem íslenskt er.