144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki átti ég nú von á að þetta frumvarp mundi styggja hv. þingmann svona mikið, en það virðist nú ekki þurfa mikið til. Tortryggnin sem styggðin byggist á er þó óþörf því að hér er um það að ræða að ráðherra framkvæmi á sama hátt og nú er til dæmis varðandi friðun húsa, hann sjái um að stimpla tillögur sem berast yfirleitt frá sveitarfélögum eða Minjastofnun. Hins vegar spyr hv. þingmaður: Hvað ef ráðherra vill ekki stimpla eða fallast á slíka tillögu sveitarstjórna? Þá minni ég hv. þingmann bara á að valdið er hjá sveitarfélögunum til þess að vernda svæðin í samræmi við þetta, en hér er verið að veita sveitarfélögunum ákveðið samrýmanlegt tæki þannig að menn viti hvað átt er við hvar sem er á landinu þegar hverfi eða svæði hljóta slíka skilgreiningu. Það hefur reynst vel í öllum þeim löndum þar sem þetta hefur verið innleitt og hefur verið eftirsótt sérstaklega af íbúum að fá slíka skilgreiningu, svoleiðis að þetta er ekki mál sem ætti að þurfa að vekja slíka tortryggni hjá hv. þingmanni.