144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða neitt um dylgjur um að ég sé eitthvað sérstaklega styggur eða tortrygginn eða eitthvað slíkt, ég las bara þetta frumvarp og mér líkar ekki við það. Verið er að taka vald frá sveitarfélögum. Frumvarpið er allt um það að ráðherra eigi að ákveða hvort byggð — ekki einstaka hús heldur byggð, Kvosin, til dæmis — sé vernduð og þar megi ekki framkvæma neitt. Þetta er tekið úr lýðræðislegu umhverfi skipulagslaganna, hér er verið að taka rétt af sveitarfélögum til að ákvarða þessa hluti og sveitarfélög gera það samkvæmt ákveðnu ferli í samráði við íbúa. Ráðherra þarf ekki að hafa neitt samráð við íbúa. Samkvæmt frumvarpinu, sem ég vona að hæstv. ráðherra hafi lesið almennilega, getur ráðherra meira að segja farið fram hjá sveitarstjórn og farið fram á það við Minjastofnun að hún geri tillögu um vernd byggðarinnar. Ég ítreka spurninguna: (Forseti hringir.) Hvað ef íbúarnir vilja vernda og ráðherra ekki? (Forseti hringir.) Verður þá bara framkvæmt (Forseti hringir.) …? (Forseti hringir.) Ræður ráðherra því?