144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er augljóslega fyrst og fremst sprottið úr samstarfsyfirlýsingu eða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna þar sem sleginn var tónninn að því er varðar ákveðna konfektkassanálgun hæstv. forsætisráðherra, að velja sér það sem honum þætti mest spennandi að gera og m.a. er þetta. Ég deili því með honum að mikilvægt er að gæta að sögulegri byggð og uppbyggingu hennar. Mér finnst þetta hins vegar algjör tímaskekkja, eins og framsetningin er á þessu tiltekna máli, þar sem í raun er verið að velja sér það sem mann langar mest í sem forsætisráðherra en kannski ekki horft til þess hvernig lagaumhverfið er nákvæmlega núna og hvernig það hefur náð ágætlega að þjóna þeim markmiðum sem hér eru nefnd.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sjálf hef ég gegnt embætti ráðherra skipulagsmála sem hæstv. forsætisráðherra er ekki, um þær athugasemdir sem komu fram í aðdraganda eða við samningu frumvarpsins frá fyrst og fremst Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, auk Minjastofnunar Íslands. Hér kemur fram í mjög stuttum kafla um samráð að haldnir hafi verið nokkrir fundir með þeim aðilum og þar hafi komið fram sjónarmið sem leitast hefur verið við að taka mið af við samningu frumvarps þessa. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hverjar voru þær athugasemdir helstar sem komu fram hjá þeim aðilum? Hvernig kom forsætisráðuneytið til móts við þær athugasemdir, hversu langt og hvað er það helst sem út af stendur í því, því að hér er sannarlega (Forseti hringir.) gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins?