144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að ekki hefur spilast nægilega vel, að minnsta kosti að mínu mati, úr þeim heimildum sem sveitarfélög hafa til hverfisverndar. Hæstv. forsætisráðherra vísar til laga erlendis um svipuð mál. Ég dreg það ekki í efa. Það hefði hins vegar verið fróðlegt fyrir þingheim, ég tala nú ekki um til lögskýringar síðar meir, ef vísað hefði verið í greinargerðina og fjallað örlítið um þau atriði. Ekki það, eins og ég segi, ég dreg það ekki í efa að svo sé, ég þekki það erlendis frá að það eru alls kyns ákvæði um hverfisvernd. Ég tek sem dæmi Lundúnaborg þar sem einstakar götur eða hverfi hafa verið vernduð, yfirbragð þeirra, en það er ekki endilega verndun af hálfu hins opinbera, heldur er líka þekkt að þinglýstar kvaðir séu að frumkvæði íbúanna sjálfra sem þar um ræðir. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort ekki komi til greina að gera einhvers konar breytingar á frumvarpinu sem kæmu til móts við íbúalýðræði eða hagsmuni íbúa á tilteknum svæðum.