144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um áðan tel ég æskilegt að íbúar geti sjálfir haft sem mest frumkvæði í þessum málum. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ekki hvað síst í Bretlandi hefur það oft verið af hálfu frumkvæðis íbúa sem ráðist hefur verið í skilgreiningu á borð við þessa, á borð við það sem hér er verið að kynna, að hverfi eða svæði hafa verið gerð að sérstökum verndarsvæðum, „conservation area“ heitir það, með leyfi forseta, á ensku. Mörg slík svæði eru í London af því að hv. þingmaður nefndi það og ég dreg það ekki í efa að í mörgum tilvikum hafi frumkvæðið komið frá íbúunum. Svo bætist það við að þegar slík skilgreining hefur verið veitt þá er iðulega sóst eftir því að svæðið sé stækkað því nágrannarnir vilja komast inn fyrir ramma verndarsvæðisins.