144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem í andsvar fyrst og fremst til að þakka prýðisgóðar athugasemdir hv. þingmanns. Eins og ég gat um stuttlega áðan er ég sammála því sem hv. þingmaður talaði töluvert um, þ.e. mikilvægi þess að almenningur hafi sem mesta aðkomu þarna að og sem mestan möguleika á að eiga frumkvæði að því að byggðarlag viðkomandi eða nánasta umhverfi verði metið á þennan hátt, að skoðað verði hvort hægt sé að veita slíka vernd. Þetta hefur verið töluvert til umræðu í Bretlandi þar sem, eins og ég held ég hafi líka getið um áðan, frumkvæðið kemur oft frá íbúunum sjálfum. Þar hefur sá möguleiki verið fyrir hendi þegar íbúarnir telja að sveitarstjórnin sinni þeim ekki nógu vel eða einhverjir aðrir hagsmunir séu látnir ráða för þar, hagsmunir t.d. eins og verktakanna sem hv. þingmaður nefndi að vildu fara í miklar framkvæmdir í Soho, að almenningur getur skotið málinu til ráðherra til umfjöllunar.

Það er einmitt vegna dæma eins og Soho-dæmisins sem hv. þingmaður nefndi að mjög mikilvægt er að hafa sem sterkastan möguleika og vernda heildina, vernda byggðarheildir, því að þrýstingurinn á að fara í miklar framkvæmdir getur orðið mjög mikill. Þeim mun meiri verður þrýstingurinn eftir því sem svæðið er meira aðlaðandi og eftirsóttara.

Ég næ ekki að fara yfir allt sem hv. þingmaður nefndi í þessu andsvari en það er annað andsvar eftir og svo kannski ræða á eftir.