144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra andsvarið. Ég vil ítreka þau sjónarmið sem ég kom fram með í ræðu minni um það ef almennur vilji er til þess hjá bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hér hafa talað að aðkoma almennings sé tryggð og hún sé í raun og veru nauðsynleg til að tryggja sátt um mikilvægar ákvarðanir. Það er sannfæring mín, sem styrkist eftir því sem ég lifi lengur, að skipulag hefur ótvíræð áhrif á lífsgæði fólks, að umhverfið sé sem mennskast, þannig að fólk geti dafnað vel. Þá skiptir auðvitað máli að almenningur geti haft áhrif, bæði aðgengi og áhrif, þannig að ég mundi segja að mjög æskilegt væri að í þeirri nefndarvinnu sem er fram undan, sama hjá hvaða hv. nefnd það verður, verði skilgreint á einhvern hátt í samvinnu við ráðuneytið hvernig nákvæmlega við sjáum fyrir okkur aðgengi almennings að þessari ákvarðanatöku. Ég held að mjög mikilvægt sé að það hangi ekki aðeins á því að almenningur geti safnað saman undirskriftum og skilað, við þurfum að hafa leikreglur sem eru skýrar og gagnsæjar þannig að fólk geti skotið málum sínum til viðkomandi sveitarstjórna eða Minjastofnunar í þeim tilfellum þar sem hæstv. ráðherra segir að sveitarstjórnir upplifi að á þær sé ekki hlustað. Mér finnst mjög mikilvægt að leikreglurnar séu skýrar, gagnsæjar, þannig að allir eigi sama aðgang.