144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:19]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hér er komið fram mál sem lýtur að varðveislu menningarsögu sem endurspeglast í húsagerð og manngerðu umhverfi. Hér í þessum sal er oft og iðulega fjallað um, eða a.m.k. undanfarin ár, verndun náttúrunnar, en það er miklu sjaldnar sem hið manngerða umhverfi er til umræðu. Til staðar hefur verið heimild í lögum til húsafriðunar en hér er stoðum rennt undir þær heimildir og gott betur því að frumvarpið felur í sér mikla stefnumörkun hvað þetta varðar. Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta sé til umfjöllunar því að í þéttbýli eru svo sannarlega til staðir sem telja má að hafi menningarsögulegt gildi í víðu samhengi. Ég vil til að mynda benda á að götumyndir í Reykjavík eða á Íslandi hafa ekki í raun varðveist svo nokkru nemi. Til eru örfáar götumyndir frá 4. áratug síðustu aldar, en ekki margar heillegar götumyndir. Þeim fer aðeins fjölgandi, en ég held ég þori að fullyrða að götumyndir frá eldri tíma séu ekki til.

Ég vil í framhaldi af þessu benda á að mönnum hættir til að horfa til fortíðar í þessu sambandi, það liggur svolítið í eðli hugtakanna verndun og hverfisverndun, menn eru fljótir að hrapa að þeirri ályktun að það sé fortíðin sem skipti máli. En það er líka þannig að götumyndir framtíðarinnar eru að verða til í dag. Ég tel ekki síður mikilvægt að menn hugi að verndun í upphafi því í upphafi skyldi endinn skoða. Þess vegna langar mig að fjalla hér á eftir einmitt um það sjónarmið sem ég tel að ekki sé kannski almennilega komið til móts við í frumvarpinu.

Garður er granna sættir og má til sanns vegar færa svo langt sem það nær en það mál sem þetta frumvarp fjallar um, hverfið, er ekki bara hagsmunamál alls almennings í sögulegu samhengi eða menningarsögulegu samhengi heldur líka hagsmunamál einstaklinga sem búa í hverfunum. Þeir geta haft af því ákveðna hagsmuni að fasteignaeigandinn við hliðina á þeim eða í næsta nágrenni breyti húsi sem breytir ásýnd alls hverfisins. Það eru því tvenns konar sjónarmið sem þarf að hafa í huga. Það er menningarsögulegt gildi sem við getum sagt að sé ákveðið hagsmunamál þjóðarinnar og svo eru það hagsmunir einstaklinga vegna þess að frelsi manna nær ekki lengra en að nefi næsta manns og umhverfi einstakra húsa hefur áhrif á nágranna. Dæmi um þetta eru einmitt götumyndirnar, heilu götumyndirnar. Þetta er sjónarmið sem ég tel eðlilegt að hafa í huga þegar menn tala um hverfisverndun. Það er einmitt þess vegna sem mikilvægt er að íbúar hafi frumkvæði og geti haft raunveruleg áhrif eða a.m.k. einhvers konar málsskotsrétt þegar kemur að vernd þeirra hverfis.

Virðulegi forseti. Þótt ég fagni þessari umræðu um skipulagsmál í þéttbýli vil ég samt taka fram að ég er enginn sérstakur talsmaður þess að lög séu sett um hvaðeina sem lýtur að skipulagsmálum. Þótt ég sé sjálf ákafur áhugamaður, ef svo mætti segja, um skipulagsmál í þéttbýli, á það ekki að mínu viti að vera sérstakt markmið að setja lög um hvaðeina, enda tel ég ekki að lagasetning geti náð utan um alla þætti húsafriðunar eða verndunar heilla hverfa og jafnvel ekki náttúrunnar ef út í það er farið. Ég er þannig þenkjandi í pólitík og hef þá lífsskoðun að hallast að því að eignarrétturinn sé friðhelgur, hann sé í raun undirstaða lýðræðis og hagsældar hverrar þjóðar. Ég er heppin að hafa fæðst í landi sem hefur tileinkað sér það viðhorf með lögum. Í eignarréttinum felst tvennt, það er auðvitað afnotaréttur, en líka ráðstöfunarréttur og það þarf að hafa hann í huga þegar kemur að húsafriðun. Þarna er mjög fín lína og oft erfitt viðfangsefni að samræma sjónarmið um húsafriðun og ráðstöfunarrétt manna yfir eigum sínum. Það ber að árétta það og halda til haga að eignarrétturinn er meginreglan hér á landi og sjónarmið sem ganga gegn eignarréttinum verða að styðjast við einhver þau rök sem menn telja miklum mun mikilvægari en eignarrétturinn.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að markaðslausnir almennt henti í rauninni langbest til þess að vernda bæði náttúru og hús. Ég tel miður að til dæmis þeir stjórnmálamenn sem eru sammála mér um verndun náttúrunnar og húsafriðun hafi ekki leitt hugann meira að markaðslausnum í málflutningi sínum vegna þess að það hefur sýnt sig, við höfum svo mörg dæmi um það, að markaðslausnir hafa í raun verið eina tækið sem hefur virkað við verndun náttúrunnar. Ég tek sem dæmi fiskveiðiauðlindir hafsins og náttúruauðlindir ýmiss konar. Einstakir fossar hafa ekki verið virkjaðir af því að þeir hafa verið í einkaeigu manna eða einstaklinga sem hafa látið sig verndun náttúrunnar varða, jafnvel þótt töluvert fé sé í boði fyrir þá. Ég hvet þingheim til þess að hafa þetta í huga við umfjöllun um frumvarpið.

Ég var um helgina á ráðstefnu um verndun sjávarminja, missti þar reyndar af ræðu sem mér skilst að hæstv. forsætisráðherra hafi flutt við upphaf ráðstefnunnar, en það var fróðleg ráðstefna. Þar var fjallað sérstaklega um það hversu vel Bretum og Skotum hefur tekist að vernda sjávarminjar. Það getur verið gríðarlega vandasamt verk, eðli málsins samkvæmt. Hluti af ástæðu þess að svo vel hefur gengið á Bretlandi með verndun sjávarminja og reyndar alls kyns verndun annarra minja, er að einkaeignarrétturinn er í nokkrum hávegum hafður á Bretlandi að þessu leyti. Menn eiga náttúruminjar sem finnast á jörðum þeirra, þeir hafa af því hag að finna náttúruminjar. Þeir hafa leyfi til þess að stofna einkasöfn, einkalistasöfn um menningarminjar. Hér á landi væri það ekki hægt vegna þess að menn líta á að menningarminjar séu í eigu ríkisins og þá verði ríkið að reka söfnin. Á Bretlandi hefur þessu verið öðruvísi háttað og að mínu mati held ég að þeir standi Íslendingum miklu framar á þessu sviði við verndun menningarminja.

Svo við tökum annað dæmi frá Bretlandi, Lundúnaborg, hafa menn verndað þar ákveðin hverfi og yfirbragð hverfa. Ég tek sem dæmi svartar hurðir í húsum við nokkrar götur í Bretlandi. Þetta er ekki að ofan komið. Þetta er ekki tilskipun að ofan sem fasteignaeigendur við ýmsar götur í London hafa ákveðið eða þar sem menn eru bundnir við að haga útliti húsa sinna á ákveðinn hátt. Menn hafa tekið sig saman fyrir hundrað árum eða fyrr þegar húsin voru að byggjast upp eða hverfin voru að byggjast, þinglýst á fasteignirnar kvöðum um tiltekið útlit, og þær kvaðir standa enn þá og þarf að fá leyfi hjá öllum í hverfinu ef bregða á út af því. Það eru ekki dæmi um að menn hafi fengið við þessar götur að mála útidyrnar sínar með öðrum lit en svörtum svo dæmi sé tekið.

Þá kem ég að því sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar. Í 3. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á menningarsögu. Það er saga menningar og lífshátta á fyrri tíð sem endurspeglast í manngerðu um hverfi á tilteknum stað, eins og segir í frumvarpinu. Ég tel nokkuð til þess vinnandi að huga í raun að endinum í dag og að við veltum því fyrir okkur hvort ekki sé skynsamlegt að veita einstaklingum og íbúum eitthvert frumkvæði í þessum efnum, t.d. í hverfum sem eru að byggjast upp. Nú halda menn kannski að maður hafi mestan áhuga á miðsvæði Reykjavíkur enda líta menn alltaf til menningarminja á því svæði, en það eru auðvitað að verða til í dag menningarminjar og söguleg verðmæti í ýmsum hverfum Reykjavíkur, úthverfum Reykjavíkur. Í nýjum hverfum er að byggjast upp söguleg verðmæti. Hvernig ætla menn að fara með þau eftir 50 ár, hverfi sem eru hönnuð út í hörgul og arkitektar hafa lagt nafn sitt við kannski heilu hverfin og götur? Ég mundi telja að það væri full ástæða fyrir íbúana í þessum hverfum að hafa forgöngu um að vernda þau. Þá geta menn sagt: Þeir geta tekið sig saman og þinglýst kvöðum á húsin um útlit og umhirðu og annað slíkt, en ég er ekki viss um að það mundi halda til langs tíma í ljósi þeirrar meginreglu að ekki er hægt að takmarka heimildir fasteignaeiganda til ráðstöfunar, ég er ekki viss um að það mundi halda nema til kæmi pósitíft ákvæði í lögum þar sem um þetta yrði fjallað. Þetta er eitt atriði sem ég teldi upplagt fyrir þá hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar að skoða, hvort ekki sé hægt að huga að þeim framtíðarbyggingarsögulega arfi sem er að verða til á hverjum tíma, út um allt land að sjálfsögðu, þótt ég hafi nefnt Reykjavík hér.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara efnislega í frumvarpið að öðru leyti en því sem ég nefndi í andsvari, ég sé ekki ástæðu til þess að í 12. gr. sé gert ráð fyrir að ákvæði um hverfisvernd sé fellt úr skipulagslögum. Þá vil ég líka nefna 6. gr., þar sem fjallað er um að veita eigi almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri. Ég teldi betur fara á því að ákvæðið væri útfært með mun skýrari hætti en þetta.

Að öðru leyti hlakka ég til að frétta af afdrifum þessa frumvarps hjá hv. allsherjar- og menningarmálanefnd. Ég velti því svo sem líka fyrir mér hvort það eigi ekki frekar heima í skipulags- og umhverfisnefnd, en það kemur svo sem út á eitt, vegna þess að málið kemur í öllu falli alltaf til umræðu á þinginu. Ég hlakka til að heyra af framhaldi málsins og taka þátt í frekari umræðum um það.