144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom með ýmsar áhugaverðar ábendingar og sjónarmið inn í þessa umræðu í ræðu sinni. Eitt af því sem hv. þingmaður nefndi var mikilvægi eignarréttarins og ráðstöfunarréttarins og þess að verja eignarréttinn vegna þess að einungis þannig mundu menn fjárfesta í eigum sínum og það væri þá öllum til hagsbóta. Þarna er komið inn á mál sem tengist einmitt einu af meginhlutverkum þessa frumvarps. Það er nefnilega hárrétt, sem hv. þingmaður bendir á, að nágrannarnir geta haft töluverð áhrif á eign hver annars. Þar af leiðandi hefur verið til staðar mjög neikvæður hvati, eins og málin hafa þróast í skipulagsmálum hér, ekki hvað síst í Reykjavík, á meðan ekki hefur verið litið til þessara nágrannaáhrifa. Ég ætla að útskýra örstutt hvað ég á við.

Ímyndum okkur nágranna sem búa í eins húsum, húsum sem einhvern tímann voru kannski falleg en hafa látið á sjá. Einn við þessa götu hefur ákveðið að verja töluverðum tíma og fjármagni í að gera upp eign sína og fegra húsið þannig að mikil prýði verður af. Nágranninn við hliðina ákveður hins vegar að fara þá leið að láta húsið viljandi grotna niður og rýrir þannig umhverfisgæði og verðmæti eignar þess sem ákvað að setja peninga í að gera sitt hús upp. En ekki nóg með það, hann lætur húsið drabbast niður að því marki að ekki er annað talið hægt en að leyfa niðurrif þess og byggingu fjölbýlishúss í staðinn. Með því fær sá sem fjárfesti ekkert í eigum sínum töluverðan hagnað út úr því að hafa látið eigurnar drabbast niður, en þeim sem setti pening í vernd og viðhald honum er refsað.