144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því áðan hvað mundi gerast ef ráðherra hefði ekki áhuga á vernd byggða og það eru mér vonbrigði að hafa ekki fengið skýrt eða nokkuð svar við þeim hugleiðingum. Það segir mér að menn séu orðnir svolítið blindaðir af eigin áhuga og eigin völdum, þeir sjá ekki veröldina út fyrir það. Menn eru ekki eilífir í embætti. Það verður að skrifa lög alveg burt séð frá því hver situr í embættinu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðin þróun í gangi í þingmálum. Það er verið að leggja fram mál eftir mál þar sem á að færa ákvarðanir til ráðherra og binda þær geðþótta hans og áhugasviði. Það gengur ekki. Þá væri hreinlegast að setja lög um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hvað hann á að ákveða. Þetta er of litað af áhugasviði hæstv. ráðherra. Við verðum að mótmæla því.

Svo vil ég nefna eitt í viðbót sem lýsir svipaðri tilhneigingu og það er það hvernig menn umgangast rammaáætlun, áætlun um virkjun og vernd. Það tengist þessu náttúrlega aðeins. Hér er frumvarp um það hvernig menn sjá fyrir sér vernd byggða, borgarhluta. Mundum við sætta okkur við að umgjörðin utan um vernd náttúrunnar, vernd á náttúruperlum væri með sama hætti og er í þessu frumvarpi? Ef við mundum prófa að skipta út byggðum fyrir náttúru? Væri þetta fullnægjandi rammi? Væri sátt um þann ramma ef hann væri svona, að ráðherra gæti ákveðið hvort Gullfoss væri verndaður eða ekki (Forseti hringir.) og farið væri yfir það á fjögurra ára fresti?