144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er í raun og veru hér undir er enn eitt frumvarpið sem er ætlað að leiða til löggjafar, sem snýst um að ráðstafa landi með einhverjum móti. Við höfum séð og erum með til meðferðar í ýmsum nefndum þingsins frumvarp sem kallað er innviðafrumvarp í daglegu tali, frumvarp um náttúrupassa, við erum tala um náttúruverndarlög, við erum að tala um rammaáætlun, við erum að tala um raflínur o.s.frv.. Hér er verið að pota í eða hafa áhrif á skipulagslög.

Í gær var mælt fyrir landsskipulagsstefnu. Það er til verulegrar umhugsunar að koma inn með löggjöf sem er enn til að flækja þá mynd. Ég held að það sé til töluvert mikils unnið að horfa til þeirrar löggjafar sem þegar er fyrir hendi og reyna að byggja inn í þá lagabálka sem eru til. Þar er ég að tala um til að mynda innviðafrumvarpið, sem hefur verið nefnt og ætti ágætlega heima líka í styrkingu landsskipulagskafla náttúruverndarlaga og mætti vel nálgast með þeim hætti. Það er ekki á kostnað málefnisins.

Af því að hv. þingmaður spurði engra smáræðisspurninga um samspil náttúruverndarlaga, skipulagslaga og allt það eru meginstraumar og stefnur í allri þessari löggjöf að draga úr miðstýringu, styrkja sveitarfélögin í fyrsta lagi, og almenning í öðru lagi. Það er það sem meginskrefin hafa verið að vinna í áttina að.

Af því að við erum að tala um heimildarákvæði í náttúruverndarlögum þá þekki ég þau heimildarákvæði mjög vel. Þau eru mjög sterk, en þeim er ekki beitt vegna þess að það er skilningur fólks, það er skilningur stjórnvalda og hefur verið um árabil, að farsæl (Forseti hringir.) friðlýsing náist ekki fram öðruvísi en með samspili sveitarfélaga, landeigenda (Forseti hringir.) og umhverfisyfirvalda. Það er hugsunin sem við verðum líka að innleiða í lagatexta.