144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[18:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka aðeins þátt í þessari umræðu um frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð. Ég verð að taka undir með þeim félögum mínum sem hafa talað um ansi margt sem hefur komið fram. Í sjálfu sér er hugmyndafræðin um það sem er undir, verndun í byggð og í þéttbýli, af hinu góða en það er aðferðafræðin sem er notuð sem okkur hugnast ekki, mörgum hverjum. Hér hefur eitt og annað sem ég hafði hugsað mér að fara í verið ágætlega rakið. Þegar maður veltir því fyrir sér er þetta auðvitað byggt á stjórnarsáttmálanum, það er alveg ljóst, þetta kemur fram þar, en sem fyrrverandi sveitarstjórnarkona hef ég miklar áhyggjur af þessu inngripi í skipulagsvald sveitarfélaga. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og málinu hefur verið vísað þangað af hálfu hæstv. forsætisráðherra, eða beiðni um það. En ég tel í ljósi þess að verið er að breyta skipulagsvaldinu fyrst og síðast en ekki menningarminjaþættinum, sem á auðvitað heima í allsherjar- og menntamálanefnd, að málið eigi betur heima í hinni nefndinni, eins og margt annað skarast þetta.

Mér finnst hið lýðræðislega ferli sveitarstjórnarmanna sem fylgir því að ráðstafa landi, eins og í skipulagslögum, vera tekið töluvert niður hér og get því ekki stutt þetta mál eins og það kemur fyrir. Ég þekki það af eigin reynslu, hafandi starfað í sveitarstjórnarmálum, að hús eru umdeild eða svæði eru umdeild, götumyndir og annað því um líkt. Ég tek undir að miklu skiptir að vernda götumyndir og hef staðið fyrir því í heimabyggð minni, bæði hef ég komið að uppbyggingu og viðhaldi slíkra fasteigna og eins staðið í vegi fyrir því að fasteignir verði hreinlega jafnaðar við jörðu. Mér er því málið kært hvað varðar að vernda byggðina.

Þessi mál eru gjarnan töluvert umdeild og það hefur komið hr fram í umræðunum í dag að eftir því sem maður hlustar meira og les frumvarpið betur vakna fleiri efasemdir. Mér finnst að almannahagur eigi að ráða miklu meira en við erum vön og sérstaklega þegar kemur að ákvörðunum um skipulag og framkvæmdir í hverfum, eða hvar sem er í þéttbýli, og á þeim stöðum sem eru okkur nærri, þar sem byggðin er að einhverju leyti gömul eða okkur þykir hún merkileg, við eigum sem íbúar að hafa eitthvað um það að segja. Við þurfum og höfum gert það með því að gefa sögulegum byggðum, þessum svæðum, sérstöðu í skipulagslögum og með því höfum við aukið almannarétt og rétt sveitarstjórnarfólks til að vernda sérkenni svæðanna. Í kjördæmi mínu er til dæmis mjög víða að finna miklar sögulegar byggðir. Ég nefni Seyðisfjörð og Siglufjörð og fleiri staði þar sem er samansafn af gömlum húsum og þétt og gömul byggð, sem skiptir máli að varðveita. Sveitarfélögin eiga að hafa þann rétt fyrst og fremst en ekki ætti að gera eins og hefur verið rakið, að færa þetta einhendis inn í ráðuneyti. Því miður virðist það vera að gerast æ oftar og ég hef vakið athygli á því í ræðustól þingsins hvað mér finnst það vera yfir og allt um kring.

Það kemur fram hér að tilefnið sé, eins og ég kom inn á, í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, ástæðan fyrir þessu frumvarpi. Það sem vekur athygli er að þetta virðist vera vegna þess að ráðherrann hefur á því áhuga. Við náum utan um þetta í skipulagslögunum og því skilur maður ekki alveg tilganginn. Hæstv. ráðherra var ekki sammála því sem kom fram snemma í umræðunni í dag að þau lög sem hefðu verið í gildi um þetta, hvort það sem er minjaverndin eða skipulagslögin, hefðu náð utan um þetta, ekki eins og hann vildi gjarnan sjá það og eflaust fleiri okkar. Það er auðvitað alltaf færi á styrkja þau lög sem fyrir eru í staðinn fyrir að fella þau úr gildi og draga til sín verkefni, eins og á að gera. Ég hef enga trú á því, á hvorum staðnum sem þetta lendir, að meiri hluti sé fyrir því að þetta fari óbreytt í gegn, þ.e. að heimildir séu teknar á þennan hátt af sveitarfélögunum.

Ég tek undir að styrkja eigi aðkomu sveitarstjórna, almennings, að hvaða lögum sem er að hætti Árósasamningsins, á öllum stigum, og standa þar með frammi fyrir enn færri álitamálum en ella, því að þetta er gjarnan, ekki alltaf þó, mál sem miklir hagsmunir eru á bak við. Það eru alltaf einhverjir sem eiga húsin sem um ræðir á hverjum stað og það getur farið í báðar áttir eftir því hvert ráðherrann vill fara. Það getur þrengt að myndinni og það getur verið til þess að skerpa á henni, eða hvað það nú er.

Hér hafa kæruleiðirnar líka verið ræddar og í framhaldi af því að taka þetta úr lýðræðislegu umboði sveitarfélaganna, sem er eitt af því sem þarf að skýra miklu betur en gert er. Ég treysti því að nefndin fari yfir það, að slíkt verði sett niður þannig að enginn efist um hvaða leiðir sé hægt að fara.

Talað hefur verið um mat á áhrifum og hæstv. ráðherra ræddi í andsvörum í upphafi varðandi aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga að hér sé komið til móts við að þetta skuli gert eftir hverjar kosningar til að minnka kostnað sveitarfélaganna. En það hefur ekki komið neitt fram að öðru leyti hvaða aðrar athugasemdir þetta voru af hálfu sveitarfélaganna, af því að Samband íslenskra sveitarfélaga er sérstaklega tekið fram. Það hefði verið verulega áhugavert að vita hverjar athugasemdirnar voru og hefði átt að draga þær fram, af því að ef ráðherra er ekki sammála einhverri nálgun er alveg óhætt að draga það fram í greinargerð. Af því hann minntist á áhrif erlendis frá tel ég að sú nefnd sem fær málið í fangið þurfi að fá samanburðargögn um það ef slíkt er gert erlendis, ef við viljum fara þá leið.

Ég held að þetta hlutverk sveitarfélaga sé svo sterkt. Eins og ég segi er ég alin upp í mjög sögulegu umhverfi, þar er mikið af gömlum húsum sem sum hver hafa gengið í endurnýjun lífdaganna og þar hefur gamall tími verið vakinn upp með tilheyrandi viðhaldi og nálgun af hálfu Minjastofnunar eftir mikið frumkvöðlastarf. Eins og kemur fram í 4. gr. gefur það tækifæri á pólitískum nálgunum að frumkvæðið eigi að koma frá ráðherra og Minjastofnun á svo í framhaldi að vinna tillögu í staðinn fyrir það sem kemur fram í lögum um menningarminjar, þar sem tilgangur Minjastofnunar kemur fram í 1. gr., með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög þessi ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu. Lög þessi eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim.“

Ég held að þetta nái yfir það sem er verið að gera hér. Þess vegna segi ég að í raun er bara verið að færa til ákvarðanatöku, ákvörðunarvaldið. Þetta snýst fyrst og fremst um að færa ákvörðunarvaldið. Það kemur fram um byggingararfinn í 4. gr. að til hans teljist hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir o.s.frv. Þetta eru ekki mjög gömul lög, þau tóku gildi 1. janúar 2013. Yfir því er hæstv. forsætisráðherra þannig að það eru hæg heimatökin. Mér finnst algjör óþarfi að gera hlutina á þennan hátt.

Mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að svara því sem ég nefndi áðan, eins og í 9. gr. þar sem á að fella úr gildi úr skipulagslögum og taka upp í þessum sérlögum. Hvað telur hæstv. ráðherra ekki hafa virkað, af því að hann nefndi í ræðu sinni og andsvörum að hann væri ekki sammála því að þau lög sem í gildi eru virkuðu? Hvað er það sem hann telur ekki hafa virkað? Treystir hann sér ekki til þess að endurbæta þau lög sem eru í gildi? Eða getur þetta verið vegna fjármuna, af því að stofnanir eins og Minjastofnun, sem varð til úr sameiningu stofnana, hafa ekki haft nægt fjármagn? Hér var gagnrýnt, eins og við flest munum, peningaaustur hæstv. forsætisráðherra til verndar menningarminjum, eftir eigin geðþótta. Í ljósi þess sem gerðist er ekki óeðlilegt að þegar þetta er dregið inn í ráðuneyti á þennan hátt telji fólk að það geti orðið til pólitískar nálgunar á hlutina í stað þess að sveitarstjórnir eða almenningur í landinu, eða á þeim svæðum sem um ræðir, geti komið að því á tiltekinn hátt.

Ég vona að ráðherrann sé með þau svör á reiðum höndum, hvað það er sem hann telur ekki hafa virkað og hvort hann telji sig ekki geta lagfært þau lög sem þar eru undir, eða hvort þetta geti stafað af því að fjármunirnir eru ekki til staðar, eða telur hann sveitarstjórnarfólk ekki hafa staðið sig í þeirri vinnu sinni að fylgja eftir einhverri þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra hugnast og varðar húsafriðun eða verndun þéttbýlla svæða?

Það er eitt af því sem ég held að þurfi að draga fram, hvers vegna þetta er gert. Frumvarpið svarar því ekki. Ef það gengur til allsherjar- og menntamálanefndar, af því ég sé að hér situr einn af varaformönnum nefndarinnar, held ég að þetta sé eitt af því sem við þurfum að svara og vegna þess varaformaðurinn hefur setið og hlustað á umræðuna í dag og tekið þátt í henni þá hafa margar mjög góðar og gildar spurningar vaknað sem við þurfum að leita svara við. Ég vona hreinlega að málið fari til umhverfis- og samgöngunefndar. Það er ekki vegna þess að ég vilji ekki fjalla um málið, eins og ég segi hef ég sjálf tekið þátt í þess háttar starfi, að vernda hús og götumyndir, en þetta snýst ekki um það heldur um að lögin sem eru undir eru skipulagslög en ekki minjaverndin sjálf. Ég held að við eigum fyrst og fremst að hafa í huga lýðræðislegt ferli, faglegt mat, en ekki það að ráðherrann einn og sér taki ákvarðanir um svona stór mál.