144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[18:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í athugasemdum með tillögunni að þáverandi hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra skrifuðu undir samning í júlí 2014 þar sem embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands var falið að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga. Mig langaði að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji að það geti verið hættulegt að einhverju leyti að blanda saman borgaralegri stofnun á borð við lögregluna og hernaðarlegri stofnun á borð við Landhelgisgæsluna, ég lít alla vega svo á að hún sé hernaðarleg.

Það að embætti ríkislögreglustjóra, sem tilheyrir innviðum samfélagsins, sinni varnarmálum þykir mér nefnilega svolítið óþægilegt vegna þess að ef kemur til átaka þar sem reynir á varnarmál er hætt við því að menn fari að ráðast að ríkislögreglunni alveg eins og menn ráðast fyrst á herinn og hernaðarleg skotmörk. Í stuttu máli hef ég áhyggjur af því að lögreglan verði að hernaðarlegu skotmarki ef kemur til átaka. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi hugleitt þetta eða geti slegið eitthvað á áhyggjur mínar í þessu sambandi.