144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[19:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að svara því hér og nú hvort það er eitthvað sem við getum gert til að breyta þessu. En við getum líka hugsað málið aðeins víðar ef við horfum bara á slys við landhelgi okkar svo að dæmi sé tekið, olíuslys eða kjarnorkuslys. Eins og hafstraumarnir eru í kringum Ísland mundi það væntanlega hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir okkur og jafnvel nágranna okkar líka. Þess vegna held ég að eitt af því mikilvægasta sem við gerum sé að tala fyrir því og berjast fyrir því að menn afvopnist, að menn hætti að nota kjarnorkuvopn. Hvort það er draumsýn eða ekki — ástandið er nú þannig í heiminum í dag að því miður virðast fleiri sem vilji eignast þau en að fækka þeim.

Við eigum áfram að berjast fyrir því og minna á söguna sem Ísland hefur varðandi þau skref sem við tókum hér á leiðtogafundinum í gamla daga og hvernig við höfum alltaf talað fyrir þessu. Við eigum að leggja áherslu á frið. Við eigum að leggja áherslu á að menn leysi deilur með viðræðum, grípi ekki til þeirra skelfilegu vopna sem kjarnorkuvopn eru eða almennt til vopna. En við verðum að gera þetta allt út frá þeim heimildum sem við höfum og ganga eins langt og við getum. Ég get ekki svarað þeirri spurningu þingmannsins hversu langt við getum gengið í því að stoppa og banna en við verðum alla vega alltaf að virða alþjóðasamninga og alþjóðalög. Það er okkar sterkasta vopn í viðskiptum okkar við aðra að geta vísað í að við stöndum við alþjóðasamninga og alþjóðarétt og alþjóðalög. Þar sem við erum herlaus þjóð og ekki stærri en þetta, með miklar náttúruauðlindir og mikla hagsmuni, verðum við að leggja áherslu á að þeir sáttmálar og þau lög Sameinuðu þjóðanna og annað sem við erum þátttakendur í virki og séu virt. Það eru okkar sterkustu skilaboð. Pólitískt út á við eigum við að vera alveg skýr í því að á Íslandi verði ekki kjarnorkuvopn.