144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri nefnd sem ég var í voru svo sem ekki sett niður bein verkefni slíkrar stofnunar. Við veltum því fyrir okkur hvort það gæti verið heppilegt, en líka það að hinar ólíku stofnanir hins opinbera kerfis komi saman og hittist reglulega.

Þegar við vorum í þessari umræðu hafði ekki gosið í Eyjafjallajökli og síðan þá, síðan við vorum að ræða um þetta fyrir einhverjum árum erum við orðin miklu flinkari við að koma og bregðast við ef ógn stafar af einhverjum eldfjöllum hér. En hver sem ógnin er þarf að vera til eitthvert system um það hverjir koma saman og hvað á að gera. Þess vegna skiptir miklu máli að slíkur samningur sem ráðherrann sagði frá áðan, sem hefur verið gerður milli innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis og lögreglu og Landhelgisgæslu, sé til og það skiptir máli að þetta fólk hittist reglulega, þannig að ef eitthvað gerist þá viti allir hvert eigi að fara og hvað eigi að gera.

Þetta er mikil áskorun, þetta er mjög mikil áskorun fyrir íslenska stjórnkerfið vegna þess að það var líka eitt af því sem við komumst að í þeirri vinnu sem við vorum í, það er í hve óskaplega miklum turnum íslenska stjórnsýslan er; þetta heyrir undir innanríkisráðuneytið, þetta heyrir undir utanríkisráðuneytið, þetta heyrir undir landbúnaðarráðuneytið, eins og stórir múrar væru þar á milli. Það er mikil áskorun að ná einhverju kerfi þannig að það geti unnið saman. (Forseti hringir.) En mér heyrðist hæstv. ráðherra þylja það nokkuð upp hver ætlunin er að leggja fram í frumvarpi um þjóðaröryggisráðið.