144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:07]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ein af frumskyldum stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar. Þetta kallast þjóðaröryggi. Við hvað er átt með því? Það er átt við öryggi fyrir ógnum sem kunna að steðja að borgurum, stjórnkerfi og grunnstoðum samfélagsins og kunna að valda stórfelldum skaða, hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.

Hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson skipaði árið 2012 nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi og fól ráðherra hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur formennsku í nefndinni. Nefndin lauk efnislegri umfjöllun í mars 2013 en ekki reyndist unnt að ljúka nefndarstörfum með formlegum hætti fyrir kosningar í lok apríl. Nýr hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson tók síðan við málinu og það er nú að skila sér í þessari mikilvægu þingsályktunartillögu hér í dag.

Virðulegi forseti. Ég mun í ræðu minni vitna í athugasemdir með tillögu hæstv. utanríkisráðherra til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Í ljósi þróunar í öryggisumhverfi Evrópu á undanförnum tólf mánuðum hefur verið brýn þörf á því að leggja nýtt mat á hernaðarógn við gerð þessarar þingsályktunartillögu. Í greinargerð með henni er byggt á greiningum Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess og þar er talin vera takmörkuð hætta á hernaðarógn á norðurslóðum. Þróun mála í grannríkjum Íslands staðfestir þó að sýna þarf ýtrustu árvekni við mat á hernaðarógn og tryggja öflugan viðbúnað og varnargetu til að þjóðaröryggi verði ekki teflt í tvísýnu. Við reglulegt hættumat þarf síðan í ljósi aðstæðna að skoða sérstaklega hvort hækka þurfi áhættuflokkun vegna hernaðarógnar.

Í nýlegri heimsókn sinni hingað til lands sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundi með hv. utanríkismálanefnd Alþingis að Atlantshafsbandalagið hefði allan viðbúnað en engin leið væri til að segja um það hvort ógnarástandið sem Rússar hefðu skapað gagnvart nágrannaríkjum sínum með ólöglegri innlimun Krímskaga og hernaðaraðgerðum í Úkraínu mundi breiðast út. NATO er í viðbragðsstöðu og hefur eflt mjög viðbúnað sinn t.d. í Eystrasaltsríkjunum.

Virðulegi forseti. Hryðjuverk teljast til ógna sem þarfnast fullrar athygli hér á landi sem og annars staðar, ekki síst í ljósi hryðjuverka sem framin hafa verið í nágrannaríkjum okkar nýverið. Í uppfærðu mati frá embætti ríkislögreglustjóra frá því í febrúar kemur fram að óvissa um hryðjuverkaógn á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum fer vaxandi. Hættustig á Íslandi er metið í meðallagi, sem er hækkun um einn flokk frá fyrra mati. Samkvæmt þessu er ekki hægt að útiloka að okkur stafi hætta af hryðjuverkum.

Það er afar mikilvægt að mínum dómi að þjóðaröryggismál okkar Íslendinga séu tryggð og að vel sé á þeim haldið. Stöðugrar árvekni er þörf í þeim málum. Ég tel að sú vinna sem verið hefur í gangi sé afar mikilvæg og hún mun halda áfram, verði þingsályktunartillagan samþykkt og hvet ég eindregið til þess að svo verði. Það þarf skýra og góða yfirsýn og yfirlit yfir öryggishagsmuni og þeir liggja víða. Þar má nefna mikilvægi okkar lands í samhengi norðurslóða en mikilvægi þess landsvæðis hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Má búast við að sú þróun haldi áfram. Norðurslóðir eru afar víðfeðmt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggislegum skilningi. Fjölgun skipaferða vegna áhrifa loftslagsbreytinga á norðurslóðum, bæði kaupskipa og skemmtiferðaskipa sem og umferð í tengslum við olíu- og gasvinnslu og vinnslu annarra jarðefna kallar á árvekni íslenskra stjórnvalda gagnvart nýjum öryggisáskorunum. Lega Íslands skiptir miklu máli í þessum heimshluta og mikilvægt að stjórnvöld tryggi forustuhlutverk okkar Íslendinga, þótt við séum lítil þjóð, í því að hafa áhrif á framtíðarþróun á svæðinu.

Á vegum innanríkisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins hefur verið til athugunar að á Íslandi verði komið á fót alþjóðlegri björgunar- og viðbragðsmiðstöð sem nýti mannvirki og búnað sem er fyrir hendi hér á landi, t.d. á Keflavíkurflugvelli. Það er afar mikilvægt mál.

Mesta umhverfisógnin á hafsvæðinu við Ísland tengist auknum efnahagsáhrifum, þ.e. jarðefnavinnslu. Ef mikið magn af olíu læki í sjóinn á norðurslóðum gæti hún sett mark sitt á umhverfi okkar um langan tíma, þar sem olía brotnar mjög hægt niður auk þess sem mjög erfitt gæti orðið að hreinsa hana upp vegna slæmra aðstæðna og myrkurs o.s.frv. og dýralíf mundi skaðast verulega. Það er því brýnt að íslensk stjórnvöld sýni árvekni þannig að olíu- og gasflutningar sem og flutningar annarra hættulegra efna stofni ekki lífríki sjávar og um leið þjóðarhagsmunum í hættu. Sama gildir um umferð kaupskipa og skemmtiferðaskipa á svæðinu þar sem skipstjórnendur þekkja hugsanlega ekki staðhætti nógu vel, en Íslendingar búa yfir víðtækri reynslu og sérfræðiþekkingu í þessum málaflokki sem er mikilvægt að miðla á alþjóðavísu.

Virðulegi forseti. Tryggja þarf að Atlantshafsbandalagið og aðildarríki þess búi yfir nauðsynlegri þekkingu á aðstæðum á Íslandi og hafsvæðunum í kringum landið. Loftrýmiseftirlit bandalagsins og sameiginlegar æfingar, m.a. við leit og björgun, stuðla að því að tryggja árvekni og viðbragðsgetu þess á svæðinu. Unnið verður að þeim áhersluatriðum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í samstarfi við Bandaríkin og önnur grannríki Íslands eins og kemur fram í athugasemdum við þingsályktunartillögu þessa.

Norrænt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála hefur aukist verulega undanfarin ár og er það vel. Norðurlöndin leggja áherslu á þau sterku sameiginlegu gildi sem tengja þau. Hornsteinar utanríkisstefnu Norðurlandaþjóðanna eru að virða alþjóðalög um mannréttindi, jafnrétti og sjálfbæra þróun. Áréttað hefur verið að löndin muni, ef óskað er, koma hvert öðru til aðstoðar ef ógnir steðja að einhverju þeirra, hvort sem um er að ræða náttúrulegar ógnir eða ógnir af mannavöldum, netógnir eða hryðjuverk. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna ákváðu í febrúar 2014 að styrkja norrænt samstarf enn frekar með því að þróa, viðhalda og nýta viðbragðsgetu sína með enn skilvirkari hætti, m.a. með sameiginlegum æfingum.

Virðulegi forseti. Varðandi þjóðaröryggisráð og þjóðaröryggi er mikilvægt að vernda friðhelgi einkalífs íslenskra borgara eins og kostur er. Mótun netöryggisstefnu sem og framkvæmd hennar kallar á mikið og náið samstarf með alþjóðastofnunum og samtökum sem sérhæfa sig í að tryggja stafræna friðhelgi þvert á landamæri. Þá er brýnt að tryggja samstarf við önnur ríki og í þessu samhengi hafa Norðurlandaþjóðirnar eflt mjög samstarf sín á milli.

Að lokum nokkur orð um fyrirhugað þjóðaröryggisráð. Í ljósi þess að framkvæmd þjóðaröryggisstefnu og stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum varðar mjög mörg ráðuneyti og stofnanir, er nauðsynlegt að koma á virku samráði og samhæfingu þessara aðila. Í því skyni er lagt til í þessari þingsályktunartillögu að þjóðaröryggisráð verði sett á laggirnar sem forsætisráðherra veiti forstöðu. Það er góð tillaga. Hlutverk þjóðaröryggisráðs Íslands verði að meta reglulega ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og hafa eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar. Sú sem hér stendur lýsir yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillögu þessa.