144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að undirstrika þetta og ég vildi fyrst og fremst segja að með því að lesa þessa tíu punkta mætti halda að þjóðaröryggisráð ætti fyrst og fremst að snúast um það sem við getum kallað hefðbundin her- og varnarmál.

Ég er hins vegar sammála því, sem hæstv. ráðherra sagði hér núna, þ.e. að þjóðaröryggisráð þarf þá að snúast um nákvæmlega þetta, þarf þá að snúast um þessar ógnir í fyrsta flokki. Það þarf að starfa á gagnsæjan og lýðræðislegan hátt, þarf einmitt að vera mjög virkt í upplýsingagjöf og miðlun upplýsinga.

Ég heyri hvað hæstv. ráðherra segir, hann undirstrikar sinn skilning á þessu. Við eigum væntanlega eftir að fá lagafrumvarp um þjóðaröryggisráð á næstu missirum eða mánuðum. Þá vil ég ítreka að ég held að það sé mjög mikilvægt að samsetning þess endurspeglist í þeim flokkum sem liggja á bak við þessa tillögu og mikilvægi þessara flokka, þannig að samsetningin endurspegli þá mikilvægisröð sem fyrst er búið að leggja í þingnefnd og ráðherra tekur í raun undir í sinni tillögu, þannig að við séum að horfa þarna á sérfræðinga á sviðum sem lúta að náttúruvá og veðurfarsbreytingum og öðru miklu fremur en marga aðra.