144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er erfitt að ræða svona umfangsmikið mál í andsvörum. En ég vil fyrst og fremst nota minn stutta tíma hér til að segja að það getur verið flókið að samþætta þekkingu og sjónarmið um efnahagslegt öryggi, náttúruvá, hefðbundinn varnarviðbúnað, sem ég kalla svo, og svo komum við að fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi. Ég held að við eigum eftir að taka umræðu um það hér á Alþingi, og væntanlega líka innan ráðuneytisins, hvernig svona ráð mundi hreinlega virka, við eigum eftir að átta okkur á því.

Þarna ætti að koma saman mjög ólík þekking. Kannski hefðu, eins og ég segi, fæstir ímyndað sér fyrir árið 2008 að efnahagsmál gætu verið þjóðaröryggismál, svo að dæmi sé tekið. En vissulega held ég að allir sem lifðu það hrun hafi áttað sig á að öryggi landsins var í raun og veru ógnað. Þarna held ég að bíði flókin úrlausnarefni: Hvernig á að leiða saman ólík sjónarmið þannig að öll þessi atriði fái þá athygli sem þau þurfa?