144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er friðarsinni í hjarta mínu og er þeirrar skoðunar að leiðin til betri heims sé í gegnum afvopnun og með því að tala fyrir friði. Af þeirri skoðun leiðir að ég tel að ekkert ríki ætti að vera í NATO vegna þess að ég tel að samtök á borð við NATO ættu einfaldlega ekki að vera til. Það kann að vera að einhverjum finnist það vera naív afstaða, það verður þá bara svo að vera, en ég tel að þetta sé leiðin til þess að gera heiminn að betri stað.

Hvað varðar Pólland og Eystrasaltsríkin þá held ég að þeim væri betur fyrir komið utan NATO, og já, ég held að það mundi tryggja öryggi þeirra frekar, vegna þess að ég tel að einmitt sú staðreynd að NATO hefur verið að færa sig nær (Forseti hringir.) Rússlandi sé ákveðin ögrun sem leiði til stigmögnunar sem leiði svo aftur til aukinnar hættu á stríði eða einhvers konar vígbúnaði.