144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þingsályktunartillagan sem er til umræðu er að mínu mati fagnaðarefni og ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma með hana hér inn í þingið. Ég held að hún gefi okkur kærkomið tækifæri til þess, bæði í þingsal og eins á vettvangi utanríkismálanefndar, að fara gaumgæfilega yfir þá mikilvægu þætti sem þarna er fjallað um.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er um að ræða mjög mörg atriði af ýmsum toga sem þarf að takast á við í þessu samhengi. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að taka umræðuna á þeim grundvelli þannig að við lítum ekki á viðbrögð okkar við ógnum af ýmsu tagi í allt of þröngum afmörkuðum boxum heldur getum horft aðeins á það frá víðara sjónarhorni.

Til grundvallar þessari þingsályktunartillögu liggur starf þingmannanefndarinnar sem skipuð var á síðasta kjörtímabili og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór fyrir og mjög margir mikilvægir þættir skila sér í texta þingsályktunartillögunnar eftir þá vinnu. Hún ber þess að sumu leyti merki að í einhverjum efnum hefur verið um að ræða einhvers konar málamiðlanir, en engu að síður held ég að hún undirstriki vel ákveðna grundvallarþætti sem snúa að viðbrögðum okkar og varnarbúnaði gagnvart utanaðkomandi ógnum.

Það eru örfáir þættir sem ég vil staldra sérstaklega við í því sambandi. Ég legg mikla áherslu á að í þingsályktunartillögunni er gengið út frá því að þeir grundvallarþættir sem verið hafa hornsteinar, getum við sagt, varnarstefnu Íslendinga síðustu áratugina, annars vegar varnarsamstarf við Bandaríkin og hins vegar aðild að Atlantshafsbandalaginu, sú stefna er áréttuð með mjög skýrum hætti. Það er áréttað að Ísland telji og íslensk stjórnvöld telji að öryggi landsins í þessu alþjóðapólitíska samhengi sé best borgið með því að halda því samstarfi áfram og efla það, annars vegar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og hins vegar með tvíhliða samskiptum við Bandaríkin, sem vissulega breyttust við brottför varnarliðsins 2006 en eru engu að síður mjög mikilvægur liður í utanríkis- og varnarstefnu okkar. Ég held að það sé mjög ánægjulegt hve víðtæk samstaða náðist um það í starfi þingmannanefndarinnar sem skilar sér inn í þingsályktunartillöguna. Við þekkjum að það eru þingmenn og flokkar sem hafa aðra afstöðu í þeim efnum en það er ljóst hver stefna meiri hlutans er í þeim ef við tökum þingmannanefndina og síðan væntanlega þá stöðu sem er uppi í þinginu, að ekki stendur til að hverfa frá þeim grundvallarþáttum sem varnarstefna okkar hefur byggt á, aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Það er ekki á döfinni að gera það, þvert á móti er að mínu mati ástæða til að efla það samstarf og ég held að þeir atburðir sem átt hafa sér stað í heimshluta okkar á síðustu missirum séu sönnun þess eða árétting á því að með því móti getum við best tryggt stöðu okkar.

Af því að menn hafa fyrr í þessari umræðu rætt hernaðarógn og hvernig hún er flokkuð og annað þess háttar vildi ég í því sambandi nefna að þótt við gætum ekki litið svo á að hernaðarógn sé yfirvofandi, og sem betur fer eru líkurnar á því að hernaðarógn stafi að Íslandi litlar, er það bæði skylda okkar og eðli þess að hafa viðbragðsáætlanir og hafa viðbúnað sem getur tekist á við aðstæður af því tagi. Það er mikilvægt vegna þess að við verðum líka að geta verið viðbúin hinu óvænta. Þegar við mörkum stefnu af því tagi er eðlilegt að við metum ógnir eftir mismunandi stigum, eftir því hver hættan er talin vera á hverjum tíma, en við þurfum líka að vera viðbúin að bregðast við hinu óvænta, jafnvel hinu ólíklega. Atburðarás í heimsmálunum verður oft óvænt og stundum hröð og þess vegna held ég, þrátt fyrir að ég ætli ekki að gera ágreining um það hvernig hernaðarógnin er metin í þessari tillögu, að afar mikilvægt sé að fyrir hendi sé viðbúnaður og fyrir hendi sé samstarf sem ætlað er að takast á við þær aðstæður. Í raun er það ein af grundvallarskyldum okkar þegar kemur að málum af því tagi.

Annað sem hefur gerst í heiminum og verður að taka tillit til þegar þessi mál eru rædd er aukin hætta á hryðjuverkum og tekið er tillit til þess í tillögunni sem liggur fyrir að að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur hryðjuverkaógn aukist. Við höfum einfaldlega séð að hryðjuverkaógnin hefur á undanförnum missirum færst nær okkur. Hún hefur auðvitað lengi verið til staðar og við getum orðað það svo að hryðjuverk sem beinast að Vesturlöndum sérstaklega séu ekki nýmæli. En atburðir í bæði nágrannalöndum og öðrum samstarfsríkjum okkar benda til þess að hætta af því tagi hafi farið vaxandi, sem kallar á viðbrögð af okkar hálfu. Það er annar þáttur í þessari þingsályktunartillögu sem ég held að við þurfum að ræða í málsmeðferðinni í þinginu, meta á hvaða grundvelli hið breytta hættumat er byggt og taka umræðu um það hvernig við metum þá stöðu þegar þær upplýsingar liggja fyrir.

Staðan er auðvitað sú að í mörgum efnum er í þingsályktunartillögunni vikið að atriðum sem minni ágreiningur kann að vera um. Ég hef vikið að tveimur þáttum sem má vera ljóst að þingmenn kunna að hafa mismunandi afstöðu til. Þess vegna, ef við tökum svið sem getur frekar flokkast undir hið hefðbundna almannavarnasvið, varnir gagnvart náttúruhamförum eða umhverfisvá eða þess háttar, er minni ágreiningur í þeim efnum og þar af leiðandi kannski minni þörf á umræðu um þá þætti. Það er hins vegar mikilvægt að þeirra sé getið í þessu og þeir hafðir með vegna þess að í okkar daglega veruleika eru það þættir sem við þurfum að vera viðbúin að bregðast við og þurfum að hafa viðbúnað í lagi þegar upp koma.

Ég átti orðaskipti við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson rétt áðan í sambandi við netöryggi og netógnir og það er svið sem eru gerð góð skil í skýrslu þingmannanefndarinnar og í þingsályktunartillögunni og mikilvægt að við getum sagt: Ræðum þessi mál og aukum fyrst og fremst vitund okkar og vitneskju um það hvaða aðstæður við búum við að því leyti. Ég hef á tilfinningunni að meðvitund um þau efni hafi fram að þessu ekki verið á vitorði eða alla vega ekki ofarlega í huga manna, nema kannski tiltölulega þröngs hóps sem sinnt hefur þeim málum. Ég held að mikilvægt sé að við aukum athyglina á því sviði vegna þess að um er að ræða, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi áðan, viðvarandi ástand sem getur verið misalvarlegt eftir aðstæðum en engu að síður viðvarandi ástand sem þarf að vera með viðbúnað í lagi gagnvart.