144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

umræða um húsnæðisfrumvörp.

[15:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Af þessu tilefni vill forseti taka fram að hann er fullur af orku (Gripið fram í.) og það er ekki skortur á orku sem veldur því að þessi mál hæstv. ráðherra, sem þegar hefur verið dreift, hafa ekki komist hér til umræðu. Forseti væntir þess að þau geti komist á dagskrá og verði rædd hér í byrjun næstu viku. Við höfum verið að ræða önnur mjög brýn mál. Það felur í sjálfu sér enga forgangsröðun í sér af hálfu forseta. Forseti er eingöngu að reyna að þumlunga málum áfram eftir bestu getu og vill af þessu tilefni taka fram að forseti er mjög ánægður með það hvernig málum hefur undið fram hér í þinginu undanfarna daga. Hér hafa staðið yfir ítarlegar málefnalegar umræður um stór mál sem hafa verið þinginu til mikils sóma. En það er vilji forseta að taka þessi mál hæstv. félagsmálaráðherra, og fleiri mál raunar, á dagskrá sem allra fyrst í næstu viku.