144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

afnám verðtryggingar og fleiri stjórnaraðgerðir.

[15:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum að það virðast ekki vera mjög góðar samgöngulínur á milli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, formanna stjórnarflokkanna. Við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá að það virðist ekki vera mikil samstaða t.d. um afnám verðtryggingar. Forsætisráðherra segir að vel gangi með þá vinnu, en á sama tíma kemur í ljós að fjármálaráðherra segir að afnám verðtryggingar sé ekki í spilunum heldur einvörðungu breytingar á lengd tímans sem verðtryggð lán eiga að vera í boði.

Mig langað því að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvernig standi á því að skilaboðin séu svona misvísandi.

Síðan hafa líka komið upp ýmis önnur dæmi eins og með flutninginn á spítalanum, Fiskistofa, það er mjög skringilegt mál sem er einhvern veginn í limbói, síðan er það náttúrlega það sem rætt var um hér áðan, afnám hafta, það mál virðist líka vera á mjög skringilegum slóðum og mjög furðulegt að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki boðað formenn flokkanna í stjórnarandstöðu á fund með sér til þess að yfirfara þessi mál. Ég man eftir því á síðasta kjörtímabili þegar voru stórar og umfangsmiklar aðgerðir, samanber Icesave og ýmislegt annað, var boðað til fundar í forsætisráðuneytinu til upplýsingar. Það má halda því til haga að engum af formönnum flokkanna hefur verið boðið á slíka fundi síðan þessi ríkisstjórn tók við, þó hafa verið gerðar mjög margar og umfangsmiklar aðgerðir sem hafa áhrif á hag allra landsmanna.