144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

aðkoma ríkisstjórnar að kjarasamningum.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér er einhver misskilningur á ferð. Ríkisstjórnin er ekki að fara í viðræður um kjör. Það gerir samninganefnd ríkisins fyrir hönd stjórnvalda. Hins vegar liggur ljóst fyrir, eins og það hefur raunar gert áratugum saman, að það er ómögulegt fyrir hið opinbera að meta hvaða svigrúm er í kjarasamningum á meðan ekki hafa verið lagðar línur á almenna markaðnum. Hver er ástæðan fyrir því, virðulegur forseti? Jú, hún er augljós, hún er sú að megnið af tekjum ríkisins verður til með því að skattleggja almenna markaðinn og einungis þegar menn sjá í hvað stefnir þar hafa þeir forsendur til þess að meta hvað er raunhæft á opinbera markaðnum.