144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ummæli ráðherra um afnám verðtryggingar.

[15:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra lagði mikið á sig til að komast hjá því áðan að svara fyrirspurn hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um verðtrygginguna. Það er eðlilegt. Það er pínlegt að fylgjast með formönnum stjórnarflokkanna tala annar í austur og hinn í vestur í kjarnamáli á forsíðu Fréttablaðsins tvo daga í röð, sérstaklega pínlegt auðvitað fyrir forsætisráðherra því um er að ræða helsta kosningaloforð hans og Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Í gær er haft eftir hæstv. forsætisráðherra að unnið sé í fjármálaráðuneytinu að frumvörpum um afnám verðtryggingar. Í dag kemur formaður Sjálfstæðisflokksins og segir sem er, að ekki sé unnið að neinum frumvörpum um afnám verðtryggingar, það sé aðeins verið að skoða tímalengdina. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki bara heiðarlegast af honum að viðurkenna það og segja fólki satt um það að ríkisstjórnin er ekkert að fara að afnema verðtrygginguna, að stjórnarflokkarnir hafa ekki samið um afnám verðtryggingar og að Framsóknarflokkurinn gerði það aldrei að skilyrði fyrir myndun ríkisstjórnarinnar að hún mundi afnema verðtryggingu?