144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ummæli ráðherra um afnám verðtryggingar.

[15:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra verður að sakast við einhverja aðra en mig um útúrsnúninga. Fjármálaráðherra segir alveg skýrt í Fréttablaðinu í dag að ekki hafi verið lagt upp með afnám verðtryggingar heldur aðeins að takmarka e.t.v. tímalengd á sumum lánum. Forsætisráðherra lofaði afnámi verðtryggingar. Hann sagði að það væri einfalt mál. Ef hann ætlar ekki að standa við það þá er hreinlegast að hann segi það hér í ræðustól eða segi ella að fjármálaráðherra sé á villigötum. Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir heimilin í landinu ef nú á að ráðast í afnám hafta en fjármálaráðherra er bara enn þá að skoða hvort það eigi kannski að takmarka einhverja áralengd einhvern tímann á einhverjum verðtryggðum lánum. Frumvarpinu um það, fyrst forsætisráðherra minnist á það, um að banna lengri lán en 25 ára, lofaði forsætisráðherra sjálfur í stefnuræðu sinni í haust. Það frumvarp hefur ekki litið dagsins ljós. (Forseti hringir.) Og fjármálaráðherra segir að það muni ekkert líta dagsins ljós nú í vetur. Það muni kannski koma næsta haust. (Forseti hringir.) Þá þurfi að vera tímafrestir í því því þetta geti haft svo erfið áhrif á húsnæðismarkaðinn. Er ekkert að marka einu sinni stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra?