144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ummæli ráðherra um afnám verðtryggingar.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það má svo sem reyna þetta áfram, en ef menn skoða það sem hv. þingmaður sagði áðan þá sjá þeir að innihaldið er ekki neitt vegna þess að það er verið að vinna að þessari áætlun í samræmi við það sem kynnt var fyrir næstum því ári síðan. „Vinna hafin við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum“ hét fréttatilkynningin, vakti talsverða athygli á sínum tíma og umræður því það var umdeilt hvort rétt væri að gera þetta með þessum hætti í tveimur skrefum eða í einu skrefi. Ofan á varð að hrinda þessu í framkvæmd á þennan hátt og þetta er skýrt orðuð verklýsing þar sem sérstaklega er fjallað um það að fjármála- og efnahagsráðuneytið taki að sér ákveðna þætti (Gripið fram í.) þætti sem fjármálaráðherra er nú búinn að lýsa að verið sé að vinna.

Virðulegur forseti. Allt þetta upphlaup vegna þessarar sérkennilegu framsetningar í þessari frétt, ársgamalli frétt og tilraun til endurtúlkunar ársgamallar fréttar, er allt hið undarlegasta mál. Allt liggur þetta fyrir, hvernig áætlunin verður unnin og það sem fjármálaráðherra sagði um þátt fjármálaráðuneytisins í því er fullkomlega í samræmi við 1. áfanga þeirrar vinnu.