144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki mikill mannsbragur á því hjá hæstv. forsætisráðherra að bera sakir á nafngreinda menn og flýja svo úr salnum þegar þeir bera hönd fyrir höfuð sér. Hér ásakaði hann mig um trúnaðarbrot áðan. Ég vil rekja það að í aðdraganda þess fundar sem hann gerði að umtalsefni í desemberbyrjun hafði ríkisstjórnin lekið skipulega hugmyndum um útgönguskatt til fjölmiðla. Þess vegna vissu allir fjölmiðlar af þessum samráðsnefndarfundi og í kjölfar hans var eðlilega spurt um afstöðu okkar í stjórnarandstöðunni. Ég tjáði mig um afstöðu til útgönguskatts, til þess hef ég fulla heimild, sem efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram í áætlun um afnám hafta og í henni fólst útgönguskattur. Ég tjáði mig almennt um efnisatriði útgönguskatts, skynsemi hans, kosti og lesti. Það er hins vegar algjörlega ófært að taka þátt í samráði við ríkisstjórnina ef ráðherrar mega gefa yfirlýsingar holt og bolt og stilla upp alls konar skýjaborgum, en ef (Forseti hringir.) við tjáum okkur og berum hönd fyrir höfuð okkar þá erum við að brjóta trúnað. (Forseti hringir.) Það segir sig sjálft að samráð við þessa ríkisstjórn er ófært. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að það væri búið að ákveða að leggja á tiltekinn stöðugleikaskatt. Fínt. Leggðu þá fram frumvarp þar um hér í þinginu. Það er tilgangslaust fyrir (Forseti hringir.) okkur að mæta á samráðsfundi um það sem er löngu ákveðið.