144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst mjög alvarlegt að hér komi hæstv. forsætisráðherra og láti í raun og veru í veðri vaka að þessi nefnd sé lek og þess vegna hafi henni ekki verið haldið upplýstri. Það er alrangt. Mér finnst mjög alvarlegt, forseti, að hæstv. forsætisráðherra fái að komast upp með það án þess að vera hreinlega víttur fyrir svona lagað og síðan hleypur hann hér út með skottið á milli lappanna, þorir ekki að svara fyrir sig eða svara fyrir að bera á fólk lygar. Mér finnst það mjög alvarlegt, forseti. Og ég verð að segja að mér finnst framkoma hæstv. forsætisráðherra sem engu svaraði hér í fyrirspurnatíma enn og aftur til háborinnar skammar.