144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Erindi mitt í ræðustól er eiginlega að biðja hæstv. forseta sem er nú höfuð okkar hér í þinginu að eiga orðastað við forustumann ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, sem ég verð að kalla svo vegna þess að þingsköp mæla svo fyrir, en mér finnst það óþarflega hátíðlegt orð sérstaklega eftir framkomu ráðherrans fyrr í dag þar sem hann í einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar segir að ekki sé hægt að vinna með stjórnarandstöðunni vegna þess að hún kjafti frá því sem liggur fyrir á fundum. Það er ósatt, virðulegi forseti. Það er ósatt að svo hafi verið og það er náttúrlega óþolandi fyrir okkur í þessum sal að forsætisráðherrann komist upp með að hlaupa svo frá umræðunni þegar þessar umkvartanir (Forseti hringir.) eru bornar fram. Ég bið hæstv. forseta að koma fram fyrir okkar(Forseti hringir.) hönd og reyna að ala þennan ágæta mann upp.