144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst framkoma hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag hneyksli. Hún var hneyksli og auðvitað honum til vansa. Hér ásakar hann stjórnarandstöðuna um trúnaðarbrest og dylgjar um að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eigi þar einhverja sök. Ég bið herra forseta að taka málin í sínar hendur og tala máli okkar við hæstv. forsætisráðherra. Svo stekkur ráðherra út úr salnum þegar hann veit um hvað við erum að fara að tala. Hann er ekki maður til að standa hér og taka umræðuna við okkur og ræða þessar ásakanir. Þetta er hneyksli, forseti, og ég bið þig um að bregðast við því fyrir okkar hönd.