144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það liggur við að maður óski eftir því við forseta að gera hlé á liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að hann snýst í raun og veru um orð forsætisráðherra og það er alveg með ólíkindum að horfa á eftir honum hlaupa héðan út. Maður á orðið nokkuð góða seríu af myndum í huganum af honum að hlaupa héðan út. Hann talar ítrekað um rökræður. Rökræður við hvern er hann að eiga? Á hann einhverjar innri rökræður einhvers staðar, vegna þess að sannarlega vill hann aldrei eiga rökræður við Alþingi?

Staðan er sú að hvert málið á fætur öðru er út og suður í ríkisstjórninni. Og það blasir við að það er engin forusta í ríkisstjórninni, það er engin heildarhugsun í neinu máli. Af hverju er það? Það er vegna þess að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki í sér snefil af leiðtogahæfileikum, það er ekki til eitthvað sem heitir það að leiða saman sjónarmið. (Forseti hringir.) Undir kringumstæðum sem þessum kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir. Það er þá verkefni dagsins að velta því fyrir sér: Úr hverju er hæstv. forsætisráðherra gerður?