144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[16:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta undir þessum lið og gera athugasemd við það að hér hefur komið fram mjög skýrt í orðum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hvernig þeir misnota þann lið og túlka hann svo að hér eigi sér stað einhver umræða, kalla meira að segja eftir því að tilteknir menn mæti til að taka þátt í umræðunni. Svo langt ganga menn í að misnota liðinn um fundarstjórn forseta að þeir eru farnir að líta á hann sem sérstakan umræðulið (Gripið fram í.) fyrir sig til þess að ræða sín sérstöku áhugamál.

Virðulegi forseti. Svo verð ég, fyrst ég er kominn hér upp, [Frammíköll í þingsal.] að nota tækifærið til að gera athugasemd við þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það hafi verið einhver önugur embættismaður í fjármálaráðuneytinu, eða hvernig það var nú orðað, sem hafi kvartað undan leka úr þessari nefnd. Í fyrsta lagi finnst mér mjög óviðeigandi að tala með þessum hætti um embættismenn, í öðru lagi var þetta ekki önugur embættismaður, það var formaður nefndarinnar sem gerði fulltrúum flokkanna í nefndinni grein fyrir því að í ljósi þess að orðið hefði þessi alvarlegi trúnaðarbrestur sæi hann ekki ástæðu til þess að halda fleiri fundi fyrr en úr þeim málum hefði verið leyst. (Gripið fram í.)