144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hefja máls á þessari umræðu og koma henni þar með á dagskrá Alþingis. Þegar maður fer að leita sér upplýsinga um ristilkrabbamein fær maður á heimasíðu landlæknis upplýsingar um að skipaður hafi verið starfshópur svo snemma sem árið 2000 sem þá þegar mælti með því að skimun yrði hafin fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Nú er árið 2015 þannig að það má sannarlega segja að þetta mál hafi verið til umræðu í mjög langan tíma og svo sannarlega er kominn tími til að þetta komist af umræðustiginu og að farið verði að skima fyrir þessari tegund af krabbameini. Málið með þessa tegund af krabbameini er einmitt að það vex yfirleitt hægt og langur tími líður frá því að fyrstu breytinga verður vart þar til krabbameinið fer að breiða sig um líkamann. Þess vegna er hægt að bregðast við þessu krabbameini ef brugðist er snemma við. Því miður höfum við enn ekki borið gæfu til að koma því í framkvæmd og þess vegna er staðan sú að 54 einstaklingar látast á ári hverju.

Mér finnst jákvætt að hæstv. heilbrigðisráðherra segi að unnið sé að undirbúningi til að hefja skimun en hins vegar neikvætt að ekki sé komin föst tímasetning á það hvenær hægt sé að byrja og hvet ég því ráðherra til að hraða þeirri vinnu (Forseti hringir.) svo mest sem verða má.

Klukkunni og hæstv. forseta ber ekki saman en ég hlýði hæstv. forseta.