144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:20]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda umræðuna. Hún er sannarlega brýn og ég heyri að þingmenn og ráðherra eru á sama máli um mikilvægi skimunar af því tagi sem málshefjandi leggur til.

Það var mjög gott að heyra hæstv. ráðherra rekja sögu aðgerða, ef svo má segja. Þetta mál er ekki nýtt af nálinni. Ráðherrar á undan þessum ráðherra hafa unnið í málinu en vinnunni miðar helst til hægt að mínu mati. Ég tek undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt hér, best væri auðvitað að við kæmum í gagnið sem fyrst þeim tillögum sem ráðgjafarhópurinn frá 2009 kom fram með. Það verður að játast að ég er svolítið svekkt yfir að það gangi ekki hraðar.

Ég las í Fréttablaðinu í dag frétt sem ég hélt í raun að væri bara búin að leysa málið. Þar segir frá því að Krabbameinsfélagið sé að hefja skimun að einhverju leyti og sé búið að ráða til sín meltingarlækni í þessar skimanir, en það vantar meira. Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta atriði rétt áðan. Við þurfum að gera þetta á stærri skala, ef svo má segja. Öll skref í rétta átt eru þó góð.

Svo vil ég aðeins segja í lokin að mottumars og það átak sem þar hefur hafist er gríðarlega mikilvægt líka (Forseti hringir.) til að draga úr því tabúi hjá kannski einkanlega karlmönnum að fara í skoðun. Það má ekki vera neitt feimnismál að greinast með ristilkrabbamein.