144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þau svör sem hann veitti okkur þingmönnum við þeim spurningum sem ég setti fram og þakka hans ræðu og áætlun. Jafnframt vil ég þakka öðrum þingmönnum fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Hér hefur komið fram, sem kom mér reyndar ekki á óvart, víðtækur stuðningur þingmanna úr öllum flokkum fyrir því að hefja skimun eftir ristilkrabbameini eða krabbameini í endaþarmi.

Tilgangurinn hjá mér var meðal annars að koma þessu á dagskrá Alþingis, við stjórnvöld, og hefja þessa umræðu sem hefur verið svo ágæt í þennan hálftíma sem okkur er ætlaður. Hér hefur verið talað um skipulega leit að brjóstakrabbameini og í leghálsi sem Krabbameinsfélagið hefur stundað mjög lengi. Það er akkúrat það sem ég tel að eigi að gera líka gagnvart þessu krabbameini, hefja skipulegar innkallanir fólks í slíka leit.

Hæstv. ráðherra sagði okkur frá áætlunum sem gerðar hafa verið og ég trúi því að þær allar, þó að einhverjar af þeim séu komnar til ára sinna, séu þannig að það sé hægt að taka þær upp, uppfæra þær og gera þær klárar ef okkur tækist, sem mér finnst vera viðfangsefnið núna, að tryggja í fjárlögum næsta árs ákveðna upphæð til að hefja þessa skipulegu leit. Störfum Alþingis þennan hálftímann væri vel varið ef það kæmi út úr þessari umræðu. Þessi skipulega skimun þarf að eiga sér stað og hér ræddi hæstv. ráðherra um það álit sem hefur komið um aldursbilið 60–69 ára. Ég held að við þurfum að fara neðar og jafnvel að fara niður undir (Forseti hringir.) 50 ára aldurinn.

Ég fagna því líka, virðulegi forseti, í lokin sem kemur fram í Fréttablaðinu í dag að Krabbameinsfélagið sé að hefja skipulega leit, en ég vil trúa því að ríkisvaldið verði að koma þar að (Forseti hringir.) með meiri myndarbrag en hefur verið og hvet ráðherra til dáða í þessum efnum.