144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að ég sé í hv. allsherjar- og menntamálanefnd fannst mér eiginlega augljóst eftir að hafa yfir þetta frumvarp og fjallað um það lítillega í gær að málið fjallar fyrst og fremst um umhverfismál og stöðu sveitarfélaga. Það fjallar að vísu um Minjastofnun sem nú er búið að færa einhverra hluta vegna úr menntamálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Það er enginn vandi að fjalla um þetta í allsherjar- og menntamálanefnd en þá þurfum við líka að fara að senda það til umsagnar til umhverfis- og samgöngunefndar og hér hafa átt sér stað bæði umræður og bréfaskriftir um það hversu langur sá tími eigi að vera, hvert sé hlutverk þeirra nefnda sem veita umsagnir og hvernig þær umsagnir séu nýttar. Ég held að þetta sé mál sem mjög brýnt sé að hæstv. forseti taki upp og reyni að skýra með einhverjum hætti hvar mál eiga heima.

Þegar ég fer yfir þetta frumvarp er alveg augljóst að ég mun styðja að það fari í umhverfis- og samgöngunefnd. Þangað á það meira erindi en í þá nefnd sem ég þó sit í, allsherjar- og menntamálanefnd, og er ég þó ekki að skorast undan því að fjalla um málið.