144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019, stjórnartillögu á þskj. 1162, máli nr. 688. Þetta er í fyrsta sinn sem tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun er lögð fyrir Alþingi og markar framlagning hennar tímamót við stjórn ríkisfjármála á Íslandi. Með þessu nýja vinnulagi er þingræðið eflt, enda er með þessu tryggt að Alþingi komi mun fyrr að mótun þess ramma sem fjárlagagerðinni er sniðinn því að í áætluninni birtist stefnumótandi umfjöllun sem beinist að markmiðum, meginlínum og heildarstærðum í fyrstu áföngum fjárlagaferlisins.

Ríkisfjármálaáætlunin sem tekur til áranna 2016–2019 segir góða sögu. Hún ber það með sér að veruleg umskipti eru að verða í rekstri ríkissjóðs. Á síðustu tveimur árum hefur náðst jafnvægi eftir hundraða milljarða hallarekstur árin á undan og horfur eru á auknum afgangi á næstu árum. Afkomubatinn hefur verið nýttur til að loka fjárlagagatinu og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs en það er augljós forsenda fyrir raunverulegri viðspyrnu í fjármálum ríkisins. Miklu máli skiptir að styrkja áfram stöðu ríkissjóðs á næstu árum og að ríkisskuldir sem hlutfall af landsframleiðslu haldi áfram að lækka. Þá þarf að skapa svigrúm til að takast á við ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs, einkum lífeyrisskuldbindingar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum missirum stutt mjög við kaupmáttaraukningu almennings. Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hafa lækkað húsnæðisskuldir verulega og létt greiðslubyrði. Ýmsir skattar og gjöld hafa einnig lækkað, bætur almannatrygginga hækkað og svigrúm skapast til að auka framlög til mikilvægra málaflokka eins og mennta- og heilbrigðismála. Stefnt er að því að bæta stöðu fólks á leigumarkaði og auðvelda fyrstu kaup á íbúð.

Með bættri afkomu ríkissjóðs á næstu árum er stefnt að því að bæta enn frekar lífskjör fólks í landinu til skemmri og lengri tíma. Það verður best gert með því að byggja áfram upp innviði samfélagsins, styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfið og draga samhliða úr álögum á einstaklinga og fyrirtæki. Til þess þarf að vinda ofan af miklum skuldum ríkissjóðs og draga úr vaxtabyrðinni eins og frekast er kostur. Nærtækast er í því efni að ráðstafa ávinningi af sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og arðgreiðslum til lækkunar skulda. Við það minnkar vaxtakostnaður og afkoman batnar þannig að meira svigrúm myndast til uppbyggingar, skattalækkana eða varúðarráðstafana í ríkisfjármálum sem nýtast munu til sveiflujöfnunar í hagkerfinu þegar á þarf að halda. Áfram er mikilvægt að sýna aðhald í útgjöldum ríkisins og greiða smám saman upp skuldir eins og ég hef komið inn á, ekki bara með eignasölu heldur líka að nýta til uppgreiðslu skulda þann afgang sem kann að myndast á næstu árum og gert er ráð fyrir að fari vaxandi í þessari áætlun. Mætti segja að það væri gert þá með svipuðum hætti og stofnað var til viðkomandi skulda með hallarekstri.

Í ríkisfjármálaáætluninni er stefnt að því að afkoma ríkissjóðs fari hægt en örugglega upp á við, það verði hægfara en stöðugur bati þannig að rekstrarafgangur verði orðinn að minnsta kosti 1% af vergri landsframleiðslu árið 2018 og haldi áfram að vaxa í áþekkum mæli á lokaári áætlunarinnar. Þetta krefst þess að frumtekjur ríkissjóðs án óreglulegra liða haldist nánast óbreyttar sem hlutfall af landsframleiðslu en að frumgjöld án óreglulegra liða vaxi nokkuð hægar en landsframleiðsla þannig að hlutfall þeirra lækki um 1% á tímabilinu. Í áætluninni er gert ráð fyrir að heildarskuldir sem hlutfall af landsframleiðslu lækki nokkuð hratt og fari úr því að vera tæp 68% árið 2015 niður í 50% árið 2019 og er markmiðið að lækkunin milli þessara ára verði að minnsta kosti 15%.

Áhersla hefur verið lögð á margvíslegar aðhaldsaðgerðir og forgangsröðun í rekstri ríkisins á undanförnum árum. Gerð var um það bil 1% aðhaldskrafa á rekstur ríkisins í fjárlögum fyrir sl. tvö ár en á móti hefur verið veitt nýtt útgjaldasvigrúm. Enn er þó ónýtt talsvert sóknarfæri til hagræðingar í ríkisrekstrinum, til að mynda í innkaupum hins opinbera, en ríkið kaupir árlega vörur og þjónustu fyrir hátt í 90 milljarða kr. Samkvæmt tillögum sem starfshópur um opinber innkaup skilaði af sér í mars á þessu ári mætti spara 2–4 milljarða kr. á ári, m.a. með því að leggja áherslu á sameiginleg innkaup, örútboð, fækkun birgja og langtímaáætlanir í innkaupum sem tengdar verða við framkvæmd fjárlaga. Ætla má að innleiðing á tillögum hópsins geti tekið nokkur ár en lagt er til að fyrstu skref að breyttu fyrirkomulagi á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana verði tekin þegar á þessu ári.

Í ríkisfjármálaáætluninni er við það miðað að fjárfestingar ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreytt en það er 1,2% í fjárlögum fyrir árið 2015. Það þýðir að nokkurt svigrúm mun verða til að ráðast í brýn og arðbær framkvæmda- og fjárfestingarverkefni, bæði vegna þess að ný verkefni koma í stað tiltekinna framkvæmda sem lokið verður við á tímabilinu og vegna þess að framlög til fjárfestinga verða hækkuð til að halda í við vöxt landsframleiðslunnar. Framlög til fjárfestinga í samgöngumálum og vísinda-, rannsókna- og tækniþróunarmálum fara vaxandi og stefnt er að því að ljúka byggingu á nýju sjúkrahóteli og hönnun á meðferðarkjarna nýs Landspítala en bygging hans verði í framhaldinu boðin út.

Áfram skal dregið úr flækjustigi skattkerfisins samhliða því að skattar verði lækkaðir eftir því sem aðstæður leyfa á heimili og atvinnulíf og tollar endurskoðaðir. Stefnt er að frekari lækkun á tryggingagjaldi og tekjuskatti einstaklinga. Niðurfelling tolla mun hafa ýmis jákvæð áhrif, m.a. á verðlag, og má að auki til lengri tíma vænta framleiðniaukningar. Gert er ráð fyrir nokkru svigrúmi í tekjuhlið áætlunarinnar til að stíga skref í þessa átt. Miklu varðar að slíkar aðgerðir verði vel tímasettar með hliðsjón af efnahagsástandinu að öðru leyti. Samhliða verður unnið að ýmsum kerfisbreytingum, t.d. í skattumhverfi fyrirtækja og áhersluverkefnum, m.a. til að skapa betri skilyrði fyrir nýsköpunarfyrirtæki og hvata fyrir erlenda sérfræðinga til að vinna hér á landi.

Miklar breytingar voru gerðar á skattkerfinu á árunum 2009–2013. Ýmsum nýjum sköttum var komið á og skatthlutföll hækkuð. Í sumum tilvikum gengu breytingar til baka á því tímabili í kjölfar gagnrýni á framkvæmd þeirra. Þá var ákveðnum lagabreytingum ætlað að gilda tímabundið vegna sérstakra aðstæðna í ríkisfjármálum og sum þeirra mála hafa nú þegar runnið sitt skeið. Mestar voru breytingar gerðar á beinum sköttum, þá sérstaklega lögum um tekjuskatt. Frá því að ríkisstjórnin tók við hefur verið unnið að því að einfalda skattkerfið, gera það skilvirkara og lækka skatthlutföll. Helstu breytingar sem ráðist hefur verið í frá árinu 2013 eru lækkun á tekjuskatti einstaklinga, afnám almennra vörugjalda og lækkun tryggingagjalds. Þar hafa ekki verið stigin stór skref en fyrstu skrefin hafa þó verið stigin og lögfest fram í tímann. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu til að auka skilvirkni þess gengu í gildi um síðustu áramót, lækkun fjársýsluskatts fylgdi hækkun bankaskattsins sem var veruleg auk þess sem sá skattstofn var breikkaður. Auðlegðarskattur var látinn renna sitt skeið og um næstu áramót fellur niður svonefndur raforkuskattur.

Frítekjumark fjármagnstekna var hækkað, útvarpsgjald var lækkað, krónutölugjöld hafa verið fryst, stimpilgjöld af lánaskjölum felld niður og heimild veitt til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til húsnæðissparnaðar eða niðurgreiðslu höfuðstóls íbúðalána. Jafnvægi í ríkisbúskapnum með hallalausum og sjálfbærum ríkisrekstri er sterk undirstaða fyrir efnahagslífið, stöðugur og sjálfbær hagvöxtur sem styðst við ábyrga stjórn efnahagsmála er megininntak ríkisfjármálaáætlunar 2016–2019 en gangi hagspár eftir verður núverandi tímabil eitt lengsta hagvaxtarskeið í seinni tíma hagsögu Íslands. Því er spáð að verðbólga verði með minnsta móti á tímabilinu, áfram dragi úr atvinnuleysi og að kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna almennings verði áfram myndarleg.

Við þessar hagfelldu aðstæður í hagkerfinu er unnið að losun fjármagnshafta. Öllu skiptir að vel takist til og að sú leið sem farin verður viðhaldi efnahagslegum stöðugleika og uppfylli sanngjarnar samfélagslegar væntingar. Eftir því sem afnámsferlinu vindur fram verður þörf á því að uppfæra langtímaáætlun ríkisfjármála til samræmis við þau áhrif sem afnám hafta getur haft á afkomu ríkissjóðs, svo sem vegna breyttra vaxtakjara og skuldastöðu.

Framgangur kjarasamninga er í augnablikinu einn helsti óvissu- og áhættuþátturinn í íslensku efnahagslífi og miklu skiptir að þau mál verði leyst þannig að verðstöðugleikanum verði ekki raskað. Að öðrum kosti verður þörf á að endurmeta forsendur áætlunargerðarinnar og getur það meðal annars haft áhrif á getu ríkisins til að grípa til aðgerða, hvort sem er á tekju- eða gjaldahlið áætlunarinnar. Slíkt kann því að hafa áhrif á áform í skattamálum, það kann að hafa áhrif á áform í fjárfestingum og eftir atvikum á öðrum sviðum, svo sem í húsnæðismálum. Þá er stöðugleiki í efnahagsmálum jafnframt mikilvægur fyrir undirbúning aðgerða til afnáms fjármagnshafta sem áður var minnst á.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að fagna því sérstaklega að við séum hér að hrinda í framkvæmd því sem lögfest var fyrir nokkrum árum, að þingið kæmi sem sagt á þessu stigi fjárlagagerðarinnar að málum og tæki til umfjöllunar langtímaáætlun sem horfði ekki bara til fjögurra ára heldur segði sögu um það hvaða meginmarkmiðum við viljum ná strax á næsta fjárlagaári. Með umfjöllun og meðferð þessarar tillögu í þinginu er verið að stíga fyrsta skrefið í að móta ramma fyrir fjárlög næsta árs. Þannig felst með samþykkt þessarar tillögu leiðbeining eða eins konar ákvörðun um meginlínurnar fyrir heildarafkomu fjárlaga næsta árs fyrir þróun útgjaldalínunnar og það hvernig við sjáum tekjur ríkisins á komandi fjárlagaári þróast, hvaða helstu atriði það eru sem geta haft þar áhrif á. Auðvitað verður að viðurkennast að á þessum tíma, þ.e. fyrri hluta árs, eru enn ýmsir óvissuþættir fyrir framan okkur sem á eftir að útkljá. Það gildir bæði um tekju- og gjaldahliðina. Engu að síður er gríðarlega mikilvægt skref að taka umræðu um þessar meginlínur, þau stefnumið sem hér er verið að leggja upp með, vegna þess að það er þá traustur grunnur byggður á samtali við þingið til að útkljá ramma fyrir einstök ráðuneyti í framhaldinu sem síðan sameiginlega mynda grunninn að næsta fjárlagafrumvarpi. Þetta verð ég að segja fyrir mína parta að er mikið framfaraskref. Þetta er í anda þeirrar hugsunar sem liggur að baki frumvarpi til laga um opinber fjármál og það gildir svo sem bæði um þann þátt þessa máls sem snýr strax að næsta fjárlagaári en ekkert síður því hvert við stefnum til lengri tíma. Það þarf að taka á þinginu fyrr en átt hefur við fram til þessa umræðu um svigrúmið, hvernig við ætlum að nýta það, hvort svigrúm er yfir höfuð til staðar og með hvaða hætti það verður gert þegar menn þurfa að herða sultarólina eða fara í aðhaldsaðgerðir. Þetta skjal lýsir því í stórum dráttum hvernig við sjáum fyrir okkur tekjulínuna þróast miðað við tekjur eins og þær eru að skila sér til ríkisins í dag og þær helstu áherslur sem ríkisstjórnin er með í þeim efnum inn í framtíðina. Hið sama gildir fyrir gjaldalínuna. Við erum með ákveðið útgjaldastig. Við kynnum hér til sögunnar áherslur um það hvernig við sjáum fyrir okkur að útgjaldalínan, heildarútgjöld ríkisins, geti þróast á næstu árum og tökum þar til sjálfstæðrar umfjöllunar það sem lýtur að frumútgjöldunum annars vegar og það sem snýr að fjármagnsgjöldunum hins vegar í þessu skjali eins og ég hef hér rakið.

Aðalatriðið er að við erum með í höndunum langtímaáætlun (Forseti hringir.) byggða á hagspám sem draga upp nokkuð jákvæða mynd, batnandi afkomu. Gangi þessar spár eftir mun styrkur ríkissjóðs vænkast verulega á komandi árum og efnahagslífið halda áfram að vaxa.