144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við gerum ráð fyrir því í fjárlögum yfirstandandi árs að hefja sölu á hlut í Landsbankanum. Við erum enn á frumstigi við að undirbúa það verkefni. Það breytir því ekki að í þessari áætlun er áfram, eins og verið hefur undanfarin ár, byggt á því að vilji þingsins standi til þess að losa um 30% hlut í bankanum og koma honum í sölu. Ég tel að samhliða slíkri sölu muni þurfa að taka í þinginu umræðu um það hvert verði framtíðareignarhald ríkisins. Ég hef sjálfur séð fyrir mér að ríkið fari með stærsta einstaka hlutinn í bankanum, geti þannig átt um 35–40% hlut og verið ráðandi hluthafi í krafti slíks eignarhlutar. En ég tel að það muni reynast mikilvægt til þess að skýra fyrir mögulegum áhugasömum fjárfestum þegar að þessu kemur hvernig ríkið sér fyrir sér að eignarhaldið þróist til lengri tíma og hvaða áform menn hafa uppi um til að mynda skráningu hlutabréfa í bankanum á almennan markað. Í mínum huga hefur ekkert breyst varðandi þetta. Þetta er eitt af okkar mikilvægustu verkefnum. Við getum samtvinnað áhrif ríkisins á stjórn bankans og hitt markmiðið sem er að losa um eignir til að borga skuldir. Við tókum á okkur miklar skuldir til að fjármagna endurfjármögnun Landsbankans. Hann hefur skilað ágætum arði og sú fjárfesting hefur ávaxtast vel. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessum tölum að sala á hlutabréfum í bankanum skili neinum arði. Það mætti segja að í því efni væri farin mjög varfærin leið, (Forseti hringir.) eingöngu að ríkið fái að minnsta kosti til baka það sem það hefur lagt fram og að það verði síðan nýtt til þess að greiða niður skuldir.