144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir að ástæða er til að taka vandaða umræðu um það hvert sé eðlilegt fjárfestingarstig hins opinbera. Við sjáum af þeim gröfum sem við erum með í skjalinu að fjárfestingarstig hins opinbera var mjög hátt á árunum fyrir hrun. Það má segja að við höfum kannski fjárfest næstum því inn í framtíðina umfram meðalþörfina, a.m.k. á þeim árum, þannig að við réðum svo sem við að það drægi eitthvað úr. Ég gagnrýndi það töluvert hér á síðasta kjörtímabili að mér fannst menn draga um of úr fjárfestingunni til að hlífa aðhaldsaðgerðum í rekstrinum. Það var stefna sem þá var fylgt.

Við sjáum líka í þessu skjali að meðan það er þokkalega kraftmikill hagvöxtur er ærið verkefni það eitt að halda hlutföllunum á sínum stað. Þegar landsframleiðslan er að vaxa er talið í milljörðum sem þarf að bæta við í fjárfestingu. Við sjáum á grafi á bls. 7 þegar atvinnuvegafjárfestingin, þessi opinbera íbúafjárfesting og önnur fjárfesting eru teknar saman hvernig fjárfesting í landinu vex úr um 150 milljörðum upp í 250 milljarða á innan við áratug.

En það er að verulegu leyti drifið áfram af atvinnuvegafjárfestingu sem er jákvætt. Ein helsta forsenda þess að hér er spáð hagvexti á næstu árum er að atvinnuvegafjárfestingin er að taka við sér.

Bara að lokum um opinberu fjárfestinguna, þar skiptir á endanum sköpum að henni sé varið í verkefni sem eru þjóðhagslega arðbær. Ég nefni í því efni að við erum að bæta við á næsta ári 2 milljörðum í samkeppnissjóðina og förum upp í 2,8 milljarða. Þar er hugmyndin sú að styðja betur en hefur átt við fram til þessa við nýsköpun (Forseti hringir.) og tækniþróun. Við stöndum líka frammi fyrir ærnum verkefnum (Forseti hringir.) annars staðar, t.d. í vegakerfinu.