144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma í þessa umræðu og finnst eiginlega að við ættum að semja um það að næst þegar þessi stóra áætlun kemur inn verði gefinn ríflegri ræðutími. Það er mjög mikilvægt að við getum rætt þetta svolítið á dýptina. Að vísu á nú margt eftir að koma í ljós sem leiðir af þessari áætlun verði henni framfylgt. Ég les það út úr þessu að það er enginn nýr Landspítali að fara af stað eða að rísa þannig að kostnaður falli til vegna byggingar hans fyrir árið 2019 því að það er ekkert svigrúm fyrir það í áætluninni. Ég les það út úr þessari ríkisfjármálaáætlun að það sé ekki von á góðu þegar samgönguáætlun kemur fram, þá loksins það verður, vegna þess að ég sé í hendi mér að það er nánast ekkert svigrúm til þess að auka fjárfestingar í vegakerfinu. Það er bara þannig. Það er einfalt að lesa það út úr þessum blöðum ef maður hefur einhverja smánasasjón af því.

Veruleikinn er sá að núverandi ríkisstjórn hefði ekki þurft að hækka einn einasta skatt til þess að hér væri myndarlegt svigrúm í viðbótarafgangi á ríkissjóði. Hún hefði jafnvel getað lækkað skynsamlega skatta eins og tryggingagjaldið sem hún hefur ekki gert. Það mælist varla. En hún hefur kosið að fella niður auðlegðarskatt, lækka veiðigjöld, lækka tekjuskatt á miðþrepi, afsala ríkinu talsverðum tekjum með því að fella niður vörugjöld af meðal annars lúxusvarningi en hækka matarskatt að vísu á móti en þó ekki þannig að það dugi til að breytingarnar komi út á sléttu. Hún fellir niður raforkuskatt um næstu áramót o.s.frv. Og hún hefur farið þannig í skuldaniðurfærsluna að verulegur kostnaður og tapaðar framtíðartekjur eru ófjármagnaðar. Þær lenda í grunni þessarar áætlunar. Það er veruleikinn. Ég bara segi það sem mína skoðun að ég tel að það séu vonbrigði hvað þetta er veikt, að það sé ekkert svigrúm þarna til vaxandi fjárfestinga, t.d. af hálfu ríkisins í innviðum. Þetta mundi ekki styðja vel við hagvöxt ef kæmu til dæmis eitthvað daufari tímar, segjum á seinni hluta þessarar áætlunar. (Forseti hringir.) Þá væri eins gott að eitthvað væri hægt að gera, menn sætu ekki bara uppi með þetta.