144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég les það meðal annars út úr töflu á bls. 19 þar sem nafnfjárhæðir fjárfestinga á verðlaginu sem þessi áætlun er á eru tilgreindar og þá vænti ég þess að hin háa tala 2016 sé vegna þess að þar er enn bókfærður hluti af skuldaniðurfærslunni. Síðan getur hv. þingmaður séð undir liðnum Heildargjöld – fjárfesting að fjárfestingin er upp á 30,2 milljarða 2017, 30,7 milljarða 2018 og 32,3 milljarða 2019. Þetta er engin aukning, enda hangir þetta fast í 1,2% af vergri landsframleiðslu.

Til að koma þarna fyrir umtalsverðum fjárfestingum í nýjan Landspítala yrði að ryðja svo miklu öðru út af því að það bætist ekki við neitt nýtt fé að ég sé það ekki gerast.

Á bls. 21 er líka fjallað um þetta og þar er sagt, með leyfi forseta:

„Í þessu viðmiði um fjárfestingarstigið felst jafnframt að gert er ráð fyrir því í áætluninni að ljúka við byggingu sjúkrahótels og ljúka fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna LSH, sem felur í sér 860 millj. kr. hækkun framlags árið 2016 og 5,1 milljarðs kr. útgjöld á tímabilinu.“

Innan þessa áætlunartímabils er greinilega ekki gert ráð fyrir neinum þeim fjárhæðum sem mundu koma nýbyggingu meðferðarkjarnans á eitthvert flug. Það er vegna þess að svigrúmið er svo þröngt eins og ég hef áður komið inn á.

Hvernig er þetta? Jú, tekjurnar hanga nokkurn veginn á svipuðum slóðum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en gjöldin lækka um 1%, þ.e. frumgjöldin, en síðan er gert ráð fyrir því að vaxtagjöldin lækki um 1% af vergri landsframleiðslu. Þess vegna lækka heildargjöldin um 2% af vergri landsframleiðslu á þessum tíma. Svigrúmið af lækkuðum vaxtagreiðslum upp á 1% af vergri landsframleiðslu, 19 milljarðar kr., er ekki nýtt í fjárfestingar eða (Forseti hringir.) annað slíkt heldur byggir afkomubati áætlunarinnar að uppistöðu til á því að vaxtagjöld ríkisins lækki. (Forseti hringir.) Það er sýnd veiði en ekki gefin eins og við vitum.