144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Ég tek undir það að í sjálfu sér er ánægjulegt að þetta plagg sé komið fram, en ég hefði viljað sjá það meira í ætt við það, eins og ég að minnsta kosti skil þingskapalögin, að þetta sé ekki einungis stóri ramminn heldur líka þeir rammar sem eiga að ná utan um ráðuneytin. Í ljósi þess sem kemur fram í upphafi, þ.e. að þetta snúist um stefnumörkun í ríkisfjármálum, finnst mér svolítið hæpið að tala um stefnumörkun nema að afskaplega litlu leyti þegar við vitum ekkert hvað á að fara til viðkomandi ráðuneyta eða til hvaða verkefna ætlunin er að veita eitthvert fjármagn, heldur einungis tekjur og gjöld í stóra samhenginu. Að mínu viti er ekki hægt að tala um stefnumörkun í rammafjárlagagerð, ekki eins og ég hef skilið hana. Ég skil ekki þingsályktunartillöguna heldur með þeim hætti. Ég hefði talið það sambærilegt og það sem við ætlum okkur væntanlega að gera með nýjum lögum um opinber fjármál.

Það er eitt og annað í þessari áætlun. Hérna er tímalína, svo ég klári það, sem liggur fyrir varðandi þessa voráætlun. Ég veit ekki hvort það er táknrænt að það á að afgreiða hana 19. júní úr ríkisstjórn sem er mjög merkur dagur og vonandi boðar það eitthvað gott. Það sem mig langaði til að ræða hérna aðeins eru margir þættir. Ég komst ekki að í andsvörum, það varð einhver misskilningur áðan, en mig langaði að velta upp þeim breytingum sem hér er að finna. Öll tillagan einkennist eiginlega meira og minna af óvissu, það er óvissa í öllum þessum stóru þáttum, óvissa varðandi áhrif afnáms hafta og það er ekki tekið neitt tillit til þess hvernig það gæti orðið hér. Það er ekki tekið tillit til launakrafna sem nú liggja fyrir á markaði þegar við gerum hér ráð fyrir 5% launahækkun og launavísitalan hefur að meðaltali verið í kringum 6,7% á síðustu 20 árum. Samt er hér gert ráð fyrir lægri tölum en raunveruleikinn segir til um. Það má alveg velta fyrir sér hvort það er ábyrgt að leggja fram einhverja svona áætlun sem kannski má ljóst vera að kemur til með að taka gríðarlegum breytingum. Ég held að við getum eiginlega verið sammála um að þessi áætlun á eftir að taka gríðarlegum breytingum. Auðvitað eru samningarnir hluti af þeirri forsendu eins og hér er tekið fram sem einn af þessum óvissuþáttum, en það að áætla bara fyrir hefðbundnum launum held ég að sé ekki skynsamlegt. Það eru nokkur atriði, t.d. að við erum ekki svo neinu nemi að greiða niður skuldir með rekstrarafgangi. Ef það á að útfæra breytingar á tekjuskattskerfinu eins og hér er lagt upp með er það samt ekki útfært með neinum hætti. Það er talað um áframhaldandi 1% aðhaldskröfu á bls. 20 miðað við fyrri ríkisfjármálaáætlun og þar á 5,5 milljarða kr. útgjaldavöxtur að dragast saman. Ég hef áhyggjur af því að þó að það eigi að einhverju leyti væntanlega að hlífa heilbrigðiskerfinu er það ekki beinlínis dregið fram. Við vitum að það kemur kannski stífast niður þar.

Svo er meðferðarkjarni Landspítalans. Auðvitað veltum við honum fyrir okkur og ég spyr ráðherrann hvort það standi til að fjármagna byggingu Landspítalans með einhverjum öðrum hætti en beint úr ríkissjóði þar sem það er ekki sýnt hér, eins og var rætt áðan. Það væri áhugavert að vita um það.

Það er eins með öldrunarmálin. Það hefur verið rætt að það er þörf á auknum úrræðum, bæði í hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum. Ég get ekki séð að það sé tekið á því með neinum afgerandi hætti. Í greinargerðinni er talað um að það eigi að halda áfram með leiguleiðina í hjúkrunarbyggingum. Ég gagnrýni það ekki en það kallar á aukna fjármuni í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Eitt af því sem vekur líka athygli mína í þessu eru 160 milljarðar sem eru teknir hér sem óregluleg gjöld. Ég velti fyrir mér hvernig ráðherra sjái fyrir sér að gera áætlunina upp miðað við hversu mörgum liðum er haldið utan sviga því að þetta geta ekki talist allt saman óreglulegir liðir hér inni. Það er alveg vitað um töluvert af þessu sem er talið upp sem óreglulegir liðir og Ríkisendurskoðun telur að ekki eigi að færa þetta með þessum hætti, heldur séu óreglulegir liðir eitthvað einstakt, eitthvað sem kemur fyrir einu sinni eða sé að minnsta kosti ekki reglubundið. Hér eru taldir upp árlegir liðir og mér finnst það mjög sérstakt.

Síðan er rætt hér um sölu á 30% hlut í Landsbankanum eins og ráðherra kom inn á. Maður spyr sig hvort það sé pólitískur vilji fyrir því. Að minnsta kosti hefur annað komið fram, síðast í dag hér í ræðustól. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir þeim hagnaði í þessari tillögu, sem er jákvætt.

Á bls. 24 kemur fram um forinngreiðslurnar í lífeyrissjóðinn, LRS, þ.e. B-deildina, að þær eiga að nema um það bil 5 milljörðum á ári frá og með árinu 2017. Það er talað um ráðstöfun á lánsfjárafgangi í sjóðstreymi sem felur í sér að rekstrarreikningurinn þarf að skila árlega á greiðslugrunni 5 milljörðum, þ.e. til aukningar á handbæru fé eins og hér kemur fram. Þá lítur maður svo á, eins og hér er sagt, að hluti sé frátekinn til þessarar ráðstöfunar. Ég velti því aðeins fyrir mér og ráðherra svarar því kannski þegar hann lokar þessu máli hvort ætlunin sé að taka lán til að greiða inn á B-deildina eða hvort eigi ekki að mynda rekstrarafgang. Er hægt að sýna fram á það í rekstraráætluninni að svo verði ekki, þ.e. það verði ekki tekið lán, heldur að rekstrarafgangurinn verði nægur til að fjármagna þessar innborganir?

Á bls. 36 er verið að tala um útgjaldavöxt í nokkrum þáttum. Þar eru stórir liðir sem við höfum oft haft til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Ég tek undir það sem sagt var áðan, þetta er allt of stuttur tími til að ræða þetta mál, en þar er gert ráð fyrir meiri útgjaldavexti í nokkrum málaflokkum með hliðsjón af lýðfræðilegri þróun og innbyggðum kerfislægum vexti. Þar er einkum talað um 3% raunvöxt í ellilífeyri og S-merktum lyfjum og 2% í lífeyrisskuldbindingum. Ég hefði áhuga á að vita hvort ráðherra teldi að áætlunin um S-merkt lyf, sem hafa hækkað mjög mikið undanfarið, stæðist af því að nú hefur myndast þörf á því að taka inn ný lyf sem hefur þó verið frestað mörg undanfarin ár.