144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki með eins mikið sundurliðaðar tölur að baki þessari ríkisfjármálaáætlun og hv. þingmaður kallar eftir. Við erum að skoða stóru myndina, hvernig staðan yrði á grundvelli þeirra hagtalna sem við höfum í höndunum. Hvað eru Hagstofan og Seðlabankinn að segja okkur um framtíðina? Hvernig líta hagspár út? Hvaða áhrif mundi það hafa á tekjuhliðina? Hver er staðan á gjaldahlið ríkissjóðs? Hvernig verða vaxtagjöldin í framtíðinni að óbreyttu? Og svo setjum við fram áherslur, ákveðin stefnumið, ákveðin viðmið um árangur sem við viljum ná og það er grunnumræðan hér.

Eins og fram hefur komið hér í umræðunum er stefnt að því í framtíðinni að við tökum jafnvel á þessu stigi, þ.e. snemma árs, enn dýpri umræðu og brjótum þetta niður á einstök málefnasvið fyrir einstök ráðuneyti en við erum ekki að gera það svo sundurliðað hér. Engu að síður er um að ræða áætlun sem birtir skýrar áherslur og það er sjálfsagt að ræða áform á einstökum sviðum.

Ég segi bara varðandi S-merktu lyfin að þar þurfum við að gera okkur grein fyrir því að kostnaður mun fara vaxandi í framtíðinni. Þetta eru dýr lyf, háþróuð lyf mörg hver, og við getum gert ráð fyrir að sama þróun verði í þeim efnum hér og annars staðar. Það er samt gríðarlega mikilvægt að áætlanir standi, það er alveg sérstakt áherslumál burt séð frá því hvaða svigrúm við gefum á hverju ári.

Við erum að horfa á stóru myndina og hún er sú að við sjáum skattbyrðina lækka, að jafn afgangur af ríkisrekstrinum fari vaxandi og skuldahlutföll lækkandi. Það er mjög björt mynd sem er að dragast hér upp.