144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það þarf aga í ríkisfjármálunum. Við erum ekki alveg sammála um forgangsatriðin eða hvort það skipti mestu máli að lækka skatta á þá sem hæstar hafa tekjurnar eða hækka ekki auðlegðargjöld, það er ýmislegt svoleiðis sem við hv. þingmaður erum ósammála um, en við erum sammála um að þarf aga í ríkisfjármálum.

Það er alveg hárrétt sem þingmaðurinn eyddi nokkrum tíma í hérna að segja, aldurssamsetning þjóðarinnar er náttúrlega að breytast. Við erum öll að verða eldri en sem betur fer fjölgar þó börnum og við sjáum það ef við löbbum Laugaveginn, ekki síst þegar veðrið verður betra, að hér er ungt fólk sem eignast fullt af börnum. Það er sem betur fer ekki komið fyrir okkur eins og Þjóðverjum þar sem yngra fólkinu fækkar og eldra fólkinu fjölgar og þess vegna breytast öll þessi hlutföll. Einmitt út af þessari breyttu aldurssamsetningu talaði hv. þingmaður um að þá aukist þörfin fyrir spítalapláss sem og hjúkrunarheimili.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór í gegnum þetta plagg. Hann kann mjög vel að lesa úr því rétt eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Hann sér ekki að það séu peningar í þessari áætlun til að byggja Landspítalann. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður létt áhyggjum mínum og sagt: Jú, féð er þarna?