144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þessar spurningar hv. þingmaður, við erum bara að fara af stað með Landspítalann. Við þurfum eðli máls samkvæmt að fjármagna hann. Ég er í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og segi að við vorum að fara yfir þau mál og blessa þau af okkar hálfu um daginn. Það er mál sem er farið af stað.

Þetta er ekki annaðhvort eða, virðulegi forseti. Enginn heldur því fram að það eigi ekki að vera neitt eftirlit. Áttar hv. þingmaður sig á því að Fjármálaeftirlitið, og þetta er eftir hrun, hefur vaxið um að minnsta kosti 200%? Við erum með langstærsta fjármálaeftirlit í heimi og það var ekki skorti á fjármálaeftirliti að kenna að bankarnir hrundu, það vantaði ekki reglurnar. Þeir hrundu um allan heim. Það var vegna þess að þetta regluvædda umhverfi var algjörlega galið, m.a. af því að það er svo flókið. Við erum með stærsta fjármálaeftirlit í heimi en samt sem áður horfðum við á fjármálastofnanir hrynja. Þær uppfylltu ekki einu sinni lögbundin skilyrði, eins og Byr og SpKef, með þetta risaeftirlit. Það er ekki samasemmerki milli árangurs og peninga sem eru settir í eftirlit.

Jafnréttisstofa hefur aukist um 94% á þessum tíma, Mannvirkjastofnun um 93%, Matvælastofnun 73%. Hverjar skyldu helstu stofnanir heilbrigðisþjónustunnar vera, þær sem eru með mestu aukninguna? Eftirlitsstofnanirnar, Lyfjastofnun með 52% og embættis landlæknis 51%. Hvar ætli Landspítalinn sé, sá sem við hv. þingmaður hugsum bæði hlýlega til? Hann er fyrir neðan meðaltalið, jókst um 22%. Ég segi bara: Jú, höfum eftirlit, höfum þetta einfalt og skiljanlegt, að það sé hægt að fara eftir þessu, og gerum sömu kröfu um aðhald í rekstri til eftirlitsstofnana og til dæmis heilbrigðisstofnana eða menntastofnana. Er það óeðlilegt, virðulegi forseti? Af hverju á að láta einn þáttinn fríspóla (Forseti hringir.) og hækka endalaust á meðan (Forseti hringir.) grunnþjónustan er kyrkt? Það finnst mér ekki skynsamlegt, virðulegi forseti.